Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 14:06:08 (1330)

1997-11-18 14:06:08# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt þeirra atriða sem mest var til umræðu í þeirri nefnd sem starfaði í sumar og reyndar ákaflega mikið líka í efh.- og viðskn. á síðasta vetri og um það hefur náðst niðurstaða sem að sjálfsögðu er málamiðlun. Án þess að ég fari að skýra hér við 1. umr. nákvæmlega hvað felst í ákvæðinu fyrir manni sem á sæti í nefndinni þá vil ég einungis endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni að hugmyndin er sú að kjarasamningarnir gilda. Þeir sem taka laun samkvæmt kjarasamningum þar sem tiltekið er í hvaða lífeyrissjóð menn eiga að greiða, verða að vera í þeim tiltekna lífeyrissjóði. Ef tekið er fram í ráðningarsamningi að viðkomandi aðili taki laun samkvæmt tilteknum kjarasamningi og skírskotað til hans er viðkomandi aðili bundinn ellegar ræður ráðningarsamningur og í skriflegum ráðningarsamningi er tiltekið, samkvæmt laganna hljóðan, um aðild að lífeyrissjóði eins og tekið er fram í 2. mgr. 2. gr. í lokin.

Þetta varð niðurstaðan. Ég get ekki skýrt þetta öðruvísi en ég hef sagt hér. Þetta er málamiðlun sem þýðir að kjarasamningarnir eru grundvallarsamningarnir um þetta mál. Sé ekki skírskotað til þeirra eða starfað á grundvelli þeirra þá hafa menn frelsi og það frelsi mun þá væntanlega birtast í ráðningarsamningi viðkomandi manns. Öðruvísi, virðulegi forseti, vil ég ekki svara þessu við 1. umr.