Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 14:16:24 (1336)

1997-11-18 14:16:24# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:16]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal lesa það sem ég sagði í framsöguræðu minni, það var svona, með leyfi forseta:

,,Ég óska því eftir að efnahags- og viðskiptanefnd skoði þennan þátt gaumgæfilega.``

Það sem skiptir máli er þetta. Frv. er flutt óbreytt eins og nefndin gekk frá því. Það liggur þannig fyrir. Ég er að vekja athygli á því að eftir að frv. var samið kom í ljós að það gætu verið tormerki á að ríkisskattstjóri gæti innheimt lífeyrisiðgjöldin hjá einstaklingunum eins og hér er lagt til. Ég bið menn um að skoða það. Að sjálfsögðu mun nefndin skoða það og það munu stjórnarflokkarnir sjá um í samstarfi við verkalýðshreyfinguna og launagreiðendur í landinu. En málflutningur hv. þm. minnir mig á það þegar menn týna glæpnum. Ég minni á það að hann var í hópi þeirra sem allra hæst höfðu við upphaf þingsins, um það að þetta væri nú stærsta deilumálið í vetur. Nú þegar komin er kyrrð á, þegar menn hafa náð samningnum og málamiðlun liggur fyrir, tínir hv. þm. fjöður af götu sinni og reynir að breyta henni í hænu.