Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 14:57:55 (1339)

1997-11-18 14:57:55# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:57]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi skal ég gefa örstutta skýringu á ákvæði til bráðabirgða II. Í þessu máli var lagt af stað með það að auka valfrelsi þeirra sem vilja leggja fyrir í formi lífeyrissparnaðar. Í starfinu öllu kom fram að það var vilji allra að svo gæti orðið í framtíðinni, jafnt þeirra sem staðið hafa að almenna lífeyrissjóðakerfinu og hinna sem hafa verið í svokölluðu frjálsu kerfi. Þar sem nú er ljóst, verði þetta frv. að lögum, að lífeyrissjóðir hafa heimildir til að gera lífeyrissparnaðinn fjölbreyttari, þá var samþykkt að láta þetta ákvæði standa í lögunum til þess að sýna svo ekki fari á milli mála hjá neinum í hvaða átt menn vilja að löggjöfin breytist. Ég held að ekki sé hægt að svara þessu öðruvísi á þessari stundu.

Varðandi 2% þá er gert ráð fyrir að frv. komi fram innan tíðar og þau lög taki gildi 1. janúar 1999. Ég vek athygli á því að í raun tekur þetta kerfi sem við erum að ræða um ekki fullt gildi fyrr en á miðju ári 1999. Ef af þessu verður, sem ég vænti fastlega, þá þýðir þetta um það bil 0,8% lækkun í skatthlutfalli ef allir taka þátt í því að hækka sig úr 4 upp í 6%.

Ég vil að lokum taka undir með hv. þm. að breyta þarf tekjutengingum lífeyrisbótakerfisins, en ég minni hins vegar á að í staðinn þarf þá að finna aðferð til að beina þeim fjármunum sem þar eru til staðar til þeirra sem allra verst eru settir og hafa ekki átt þess kost að greiða í lífeyrissjóði eða fá tekjur frá öðrum. Að allra síðustu, herra forseti, vil ég þakka hv. þm. fyrir góð orð í minn garð.