Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:02:37 (1342)

1997-11-18 15:02:37# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:02]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil þetta þannig að ef svo ólíklega vildi til að einhver annar maður væri orðinn fjmrh. í byrjun næstu aldar, þá gæti hann út af fyrir sig verið nauðbeygður til þess að láta semja frv. en það er ekki þar með sagt að Alþingi samþykki það. Það stendur ekkert um það í þessu þannig að ég tel að þetta ákvæði segi ósköp lítið.

Varðandi almannatryggingarnar sem hæstv. fjmrh. nefndi í andsvari við mig hér áðan og samspil þeirra og lífeyrismálanna, þá vil ég bara segja að mér finnst að í framhaldi af samningi um lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, um almennu lífeyrissjóðina, ættu menn að fara í að reyna að ná víðtækri þjóðfélagslegri sátt um almannatryggingakerfið og tengingu þess við lífeyriskerfið. Það á ekki að gerast með einhliða valdbeitingu að ofan, frá Alþingi, og það segi ég fyrst og fremst vegna þess að samningsaðilar þar eru kannski óljósari en í hinum tveimur málunum sem ég nefndi áðan.