Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:54:07 (1352)

1997-11-18 15:54:07# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi samhengið við almannatryggingar þá eru þær skerðingar sem þar eiga sér stað með ólíkindum flóknar. Það fólk sem hefur farið að lögum og borgað í 20 ár í lífeyrissjóð ber ákaflega lítið úr býtum fyrir að hafa borgað í hann og launagreiðendur þess, 10% af launum í 20 ár, þ.e. tvenn árslaun. Það ber ákaflega lítið úr býtum miðað við þá sem komu sér hjá því að borga í lífeyrissjóð og keyptu spariskírteini og mynduðu eignir annars staðar fyrir þetta fé og selja svo þær eignir í dag og lifa praktuglega og fá óskertan lífeyri frá almannatryggingum. Það er þetta misrétti sem er á fullu í dag. Að segja að ekki sé hægt að refsa fólki sem hefur komið sér hjá því að borga í lífeyrissjóði, þrátt fyrir mjög skýr lagaákvæði, og myndað eignir oft og tíðum og gert það meðvitað vegna þess að það vissi um þessa skerðingu almannatrygginga --- það er ekki hægt. Við erum með ákvæði í lögum um að sveitarfélögin taki þá upp á arma sína sem lenda mjög illa út úr þessu.

Varðandi lýðræðið í lífeyrissjóðunum og að það skuli vera ákvörðun hvers sjóðs eða þeirra sem setja reglugerðir fyrir viðkomandi sjóð er nefnilega ekki rétt vegna þess að aðildin að sjóðunum er ekki sjálfráð. Fólkið getur ekki ákveðið að ganga í lífeyrissjóð, það er skikkað í lífeyrissjóð. (Gripið fram í.) Og meðan sett eru lög sem skikka fólk til að borga í lífeyrissjóð þá hlýtur löggjafinn að gæta þess að viðkomandi hafi einhver áhrif á stjórn þessa lífeyrissjóðs. Ef ekki væri um það að ræða að skylda menn í lífeyrissjóð og menn gætu valið það þá þyrfti ekki svona ákvæði. En fyrst löggjafinn er að þvinga stóran hluta þjóðarinnar í lífeyrissjóði þá hlýtur hann að gæta þess að fólkið hafi einhver áhrif á það fé sem þar myndast og fólkið á sjálft.