Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:59:36 (1355)

1997-11-18 15:59:36# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:59]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessum umræðum að hv. 16. þm. Reykv. var kosinn inn á Alþingi til þess að ráða yfir lífeyrissjóðunum. Hann gefur ekki mikið fyrir það þó að eigendur lífeyrissjóðanna séu launafólk í landinu og atvinnuekendur og hafi gert samning um það. Hann var kosinn hingað inn til að ráða yfir þeim og honum finnst það vera frekleg móðgun við sig ef nokkrum þingmanni dettur í hug að benda honum á að það eru þessir aðilar sem hafa myndað samning sem er grunnur lífeyrissjóðanna. Hann aftur á móti telur að við séum hérna í þessari stofnun til þess að setja reglur ofan í hausinn á félögum og eigendum lífeyrissjóðanna, ekki bara um það hvernig fara á með peningana heldur líka um kosningar til stjórna og ráða og annars innra fyrirkomulags þessara sjóða. Þetta er ótrúlegt stjórnlyndi, herra forseti.

Í tilefni af þessum orðum hans og ummælum hans að öðru leyti og annarra sjálfstæðismanna, þá hlýt ég að spyrja: Styður Sjálfstfl. þetta frv.? Var hæstv. fjmrh. að flytja hérna framsöguræðu á vegum stjórnarandstöðunnar? Er þetta sem sagt stjórnarandstöðufrv. en ekki stjfrv.? Vegna þess að hér hafa þrír menn talað frá Sjálfstfl. þversum núna að undanförnu, þrír þingmenn og þeir eru allir í raun og veru á móti þessu máli. Það er því óhjákvæmilegt að það fáist upp gefið hvort hér sé um það að ræða að Sjálfstfl. ætli aftur að svíkja þá samstöðu sem skapast hefur úti í þjóðfélaginu um þetta mál, hvort aftur eigi að gera tilraun til að stoppa málið eins og þeir gerðu í vor. Er það svo að verkalýðshreyfingin í landinu og atvinnurekendur geti ekki samið við Sjálfstfl. af því að uppreisnaraðilar í þingflokki Sjálfstfl. eins og hv. þm. Pétur Blöndal neiti alltaf að taka tillit til þess sem gerist utan veggja þessa húss, hann sé svo stjórnlyndur að hann vilji ráða öllu sem lagt er hér fram og aldrei megi taka tillit til annarra? Það er ótrúlegt að hlusta á þessa ólýðræðislegu afstöðu sem birtist í máli þessa þingmanns hér aftur og aftur vegna þess að hlutirnir eru þannig að auðvitað geta þingmenn breytt, auðvitað getur Alþingi breytt, enda náist um það samkomulag við aðila þá sem í hlut eiga. Þannig stendur þetta mál og gagnvart því lýðræði umhverfisins verður þingmaðurinn líka að læra að beygja sig.