Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:05:47 (1358)

1997-11-18 16:05:47# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:05]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gjarnan upplýsa hv. þm. af hverju lögin voru sett. Það var vegna þess að kjarasamningarnir 1969 virkuðu ekki. Fólkið gekk ekkert í lífeyrissjóðina. Til þess að ná fólkinu inn í lífeyrissjóðina, þessi endalausa forsjárhyggja, menn skyldu tryggja sig í ellinni hvort sem þeir vildu eða ekki, fékk Björn Jónsson þetta frv. samþykkt. Þetta makalausa frv. sem er einstætt í veraldarsögunni, sem segir að öllum launþegum sé rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Og ekki er eitt orð um það hvort sjóðirnir gætu staðið við réttindi sín, hvort það væri eitthvert eftirlit með þeim o.s.frv. Ekki orð um það. Þetta er bara ein setning, þar sem hálf þjóðin er skyldug til að borga inn í eitthvert kerfi sem enginn veit hvernig á að vera. Þetta er nú allt og sumt. Það er þessi lagasetning sem hefur valdið því gífurlega fjármagni sem hefur safnast í lífeyrissjóðunum og það er þessi lagasetning sem Alþingi hefur sett sem á þátt í því að lífeyriskerfið er eins og það er nú. Það sem vantar inn í þetta frv. sem hér er fyrirliggjandi er um eftirlit og annað slíkt og að sjóðfélagarnir hafi eitthvað um þetta fé að segja. Þetta er það sem vantar inn í frv. Ég flyt brtt. um það og ég geri ráð fyrir því að hv. þm. muni styðja það. Eða er hann á móti því að sjóðfélagi hafi áhrif á sína eigin eign?