Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:07:27 (1359)

1997-11-18 16:07:27# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:07]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil við upphaf þessarar umræðu lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Ég fagna því að það skuli hafa náðst samkomulag þeirra aðila sem sátu yfir þessu verki í sumar því ég tel að hér sé um afar mikilvægt mál að ræða, mál sem varðar framtíð okkar allra mjög miklu. Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um skulda- og skattbyrði framtíðarinnar, er ljóst að með þessu frv. og með því að koma á samkomulagi um það hvernig lífeyrissjóðakerfið skuli rekið, er verið að tryggja það að smátt og smátt verði þunganum létt af almannatryggingakerfinu eftir því sem lífeyrissjóðirnir koma þar meira og meira inn í en það gefur kost á því sem er mikið og þarft verk, að endurskoða almannatryggingakerfið, gera það einfaldara og gagnsærra og sjá til þess að það þjóni fyrst og fremst þeim sem þurfa á aðstoð að halda.

Mér fannst afar athyglisverð röksemd koma fram á ráðstefnu hæstv. fjmrh. um kynslóðareikninga eða sátt milli kynslóða. Þar kom formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna í pontu og ítrekaði skoðanir sínar um valfrelsi, að það ætti að vera valfrelsi í lífeyrissjóðunum. Jafnframt því býsnaðist hún yfir skuldabyrði og skattaþunga sem biði komandi kynslóða. Einn af forustumönnum lífeyrissjóðanna var þarna staddur og benti henni á að því betur sem við tryggjum lífeyrissjóðina, því meiri sem samtryggingin er, því léttari verður skattbyrði framtíðarinnar. Þetta finnst mér mjög athyglisverð staðreynd sem vekur athygli á því hve brýnt er að þetta kerfi virki vel og starfi vel.

Auðvitað er þetta frv. ekkert fullkomið. Lífeyrissjóðirnir eru ekki fullkomnir og rekstur þeirra ekki heldur og menn þurfa eflaust að skoða ýmislegt eftir því sem tíminn líður. Ég efast ekkert um að þróunin verður í þá átt að sameina lífeyrissjóðina enn frekar en orðið er. Menn hafa verið að leita leiða til að hagræða og reka þá betur og menn eru að leita leiða til að ávaxta fjármagnið o.s.frv. þannig að það er aldrei neitt kerfi fullkomið. En hér er vissulega verið að stíga spor í rétta átt.

Ég get í sjálfu sér tekið undir að það er ákveðin spurning í ljósi ákvæða um félagafrelsi og mannréttindi hversu langt sé hægt að ganga í að skylda fólk sem hvorki er félagar í stéttarfélögum eða bundið af kjarasamningum til aðildar að lífeyrissjóðum. En ég held að það væri mjög auðvelt að rökstyðja það að hér krefst almannahagur þess að góðri skikkan sé komið á málið. Hér er verið að skylda fólk til aðildar að lífeyrissjóðum vegna þess að það er augljóst að það er almannahagur, það er hagur samfélagsins til lengri tíma litið. En ég geri mér alveg ljóst að hægt er að togast á um þetta út frá lagasjónarmiðum.

Ég vakti athygli á þessu atriði í fyrra. En eftir því sem ég hef kynnt mér þetta mál betur og áttað mig á því hvað fram undan er í okkar almannatryggingamálum, sérstaklega hvað varðar fjölgun aldraðra, þá er ég algerlega sannfærð um að hér er verið að stíga rétt skref. Og eins og ég nefndi áðan, fagna ég því að samkomulag náðist um þetta.

Málflutningur hv. þm. Péturs Blöndals er býsna sérstæður í þessu máli og kannski er ekki vert að vera að eyða miklum tíma í hann. Það er rétt sem hann segir að lífeyrissjóðirnir hafa mikið vald. En þeir eru líka ákveðið mótvægi í fjárfestingum. Þeir eru ákveðið mótvægi við einkaaðila og á bak við þá er gífurlegur fjöldi fólks. Það hlýtur að gefa auga leið að ef þessir sjóðir ekki sinna sínu starfi, fjárfesta vel og ávaxta fjármagnið eins og kostur er, þá hljóta menn að rísa upp og krefjast breytinga þannig að ég held að þeir sem óttast þetta mikla vald lífeyrissjóðanna hafi nú óþarfa áhyggjur.

Hv. þm. talaði um þessa gífurlegu uppsöfnun fjármagns. Auðvitað er mikið fjármagn þarna á ferð. En það er líka verið að safna fé til framtíðar og það er óþarfi að líta það tortryggnisaugum. Hver sjóður hlýtur að ákveða hvernig hann hagar sinni stjórn og hvaða samþykktir eru lagðar fyrir ársfundi sjóðsins. Fólk er félagar í þessum sjóðum og getur mætt á aðlfundi en það kann að vera að erfitt reynist að ná þar fram breytingum. Ég þekki það ekki sjálf. Þó ég eigi aðild að nokkrum lífeyrissjóðum, þá verð ég að viðurkenna að ég hef aldrei mætt þar á aðalfundi. Ég fer kannski að gera það. Ég kannast ekki við að við alþingismenn höfum nokkrum sinnum verið boðaðir á fund í okkar lífeyrissjóði og væri kannski tími til kominn að við fengjum eitthvert yfirlit yfir stöðuna þar.

Ég sé ekki ástæðu, hæstv. forseti, til þess að hafa mörg orð um þetta frv. en ég vil sérstaklega fagna því ákvæði sem varðar sjóðfélaga og maka, þ.e. ákvæði 14. gr. þar sem sjóðfélagi getur gert ákveðinn samning við maka sinn um skiptingu lífeyrisréttinda. Ég held að þetta sé mikið hagsmunamál fyrir konur. Ég þekki sjálf nokkur dæmi þess að konur hafi farið afar illa út úr skilnaði, sérstaklega eftir langt hjónaband. En hér er um samning að ræða milli hjóna og ég held að um mikla réttarbót sé að ræða.

Ég ætla ekki að ræða frekar atriði frv. Ég fæ ekki betur séð en hér sé verið að koma á að hluta til nokkru valfrelsi hvað varðar umframsparnað og það hlýtur að vera mjög mikilvægt að þessu kerfi sé ekki raskað og að menn stígi þá svona lítil og nett skref í því að auka sveigjanleikann. Það sem skiptir öllu máli er að tryggja að sjóðirnir verði færir um að greiða fólki góðan lífeyri, hvort sem um er að ræða örorku-, sjúkdóma- eða ellilífeyri. Það er tilgangurinn. Það skiptir meginmáli og umgjörðin verður að vera þannig að það takist.