Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:48:46 (1368)

1997-11-18 16:48:46# 122. lþ. 27.3 fundur 42. mál: #A framhaldsskólar# (innritunar- og efnisgjöld) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:48]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Nú háttar þannig til hér í salnum að ef gengið yrði til atkvæða þá yrðu skólagjöldin felld. Það vill þannig til að þingmenn Alþb. og óháðra eru í yfirgnæfandi meiri hluta í salnum og mundu örugglega njóta góðs stuðnings þess ágæta manns sem nú situr á forsetastóli þannig að ef kjósendur tryggja það að hlutföllin verði eftir næstu kosningar eins og þau eru hér í salnum núna þá erum við laus við þessi gjöld. Svo einfalt er nú það. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson mundi örugglega slást í lið með okkur því honum yrði leyft það ef hann gæti gert málið upp við sína eigin samvisku.

Herra forseti. Þau mál sem hér er hreyft í þessu litla frv. hafa verið heilmikið pólitískt deilumál um nokkurt skeið, á þessum áratug eða frá og með 1991 þegar byrjað var að leggja á skólagjöld í framhaldsskólum. Það var fyrst í tíð síðustu ríkisstjórnar, undir forustu þáv. hæstv. menntmrh., Ólafs G. Einarssonar, sem ákveðið var að leggja á nokkur skólagjöld í framhaldsskólum og síðan hefur í tíð núv. hæstv. menntmrh., Björns Bjarnasonar, verið haldið áfram á sömu braut og gjöldum bætt við, þó sérstaklega þessum margumtalaða fallskatti sem er satt að segja alveg ótrúlegt fyrirbæri og væri kannski ástæða til að segja frá á alþjóðlegum vettvangi því hann er þvílíkt undur. Hann sýnir svo mikið hugmyndaflug. Þetta er skattur sem leggst á áföll nemenda þannig að ef fólk verður fyrir því að falla þá borgar það skatt. Ef það stafar t.d. af því að viðkomandi eigi við einhverja erfiðleika að etja, t.d. á heimili sínu --- fátækt eða félagslega erfiðleika og falli þess vegna, þá kemur á þá skattur. Ekki er nóg að lenda í hremmingunum heima hjá sér heldur þurfa menn í viðbót að borga skatt fyrir það. Þannig er þetta sérstakur erfiðleikaskattur. Til viðbótar við það kemur þetta náttúrlega helst fyrir þá nemendur sem eiga að einhverju leyti það erfitt að þeir falla á prófi þó allar aðstæður séu að öðru leyti eðlilegar, t.d. nemendur sem eiga við lesblindu að stríða, þá er lagður á þessi sérstaki skattur, erfiðleikaskattur á nemendur í framhaldsskóla, eins og það sé ekki nógu erfitt að vera lesblindur eða að eiga við örðugleika af því taginu að etja. Hér er því auðvitað um alveg ótrúlegan naglaskap að ræða, ég hygg að það sé varla til á byggðu bóli dæmi um skattstofn sem eins vitlaus og þessi því allt snýr á haus. Yfirleitt eru skattar lagðir á einhver tiltekin verðmæti eða tiltekinn ávinning en þessi skattur er í raun og veru lagður á erfiðleika, lagður á fötlun, lagður á fátækt, lagður á félagslega erfiðleika. Þannig að þetta er nokkurn veginn vitlausasti og ranglátasti skattur sem hefur verið fundinn upp nú um árabil á Íslandi og er þá langt til jafnað, herra forseti. Fyrir utan það þá er þessi skattur með þeim endemum gerður að það er varla hægt að innheimta hann né setja um hann reglugerð --- það tók ráðherrann marga mánuði að þvæla saman reglugerð um þennan skatt og að lokum kom einhver óskapnaður í Stjórnartíðindum, sem eiginlega enginn maður skildi, og menn voru að klóra sér í höfðinu yfir í framhaldsskólunum fram eftir öllu sumri hvernig ætti að skilja. Það endaði með að menn skildu eitthvað af þessu og niðurstaðan er sú að það er búið að innheimta þennan fallskatt. Það kom fram hjá hv. 8. þm. Reykn. áðan. Eru það ekki 6 milljónir? Og hvað er gert ráð fyrir að innheimta í fallskattinn á árinu 1997? Eru það ekki 32 milljónir?

Auðvitað er bersýnilegt að þetta er óframkvæmanlegt, fyrir utan hvað það er vitlaust, og því auðvitað alveg sjálfsagt mál að fella þetta út. Þess vegna styðst frv. sem hér er flutt, og hv. þm. mælti fyrir áðan, ekki aðeins við almenna réttlætiskennd og skynsamlega menntamálastefnu heldur styðst það líka við skynsamlega stefnu í skattamálum vegna þess að það á ekki að leggja á svo vitlausa skatta að það sé ekki hægt að innheimta þá. Það mundi t.d. hæstv. fjmrh., ef hann sæti hérna, taka undir með mér. Forsenda þess að skattar séu af viti er að hægt sé að rukka þá inn.

Í annan stað er hér auðvitað komið að vissu grundvallarmáli í íslenskum stjórnmálum, þ.e. hvort leggja eigi skatta á nemendur í skólum. Á yfirleitt að gera það eins og gert er hérna?

Á 13. landsfundi Alþb. sem haldinn var um næstsíðustu helgi var samþykkt mjög ítarleg ályktun í menntamálum þar sem við sláum því algjörlega föstu að það eigi ekki að leggja á skatta eða skólagjöld í framhaldsskólum með þeim hætti sem gert hefur verið á þessu og síðasta kjörtímabili. Rökin fyrir því eru margþætt og við segjum reyndar líka að í viðbót við fjármuni til skólakerfisins á næstu árum á Íslandi eigi fyrst og fremst að ganga til þess að efla verkmenntanámið og það eigi að vera forgangsliður. Það þýðir auðvitað að sú viðbót hlyti að einhverju leyti að fara til þess að greiða niður þann efniskostnað og námsgjöld sem fólk er að borga í verknáminu í framhaldsskólum.

Við stöndum núna frammi fyrir því á Íslandi að 50% af hverjum árgangi, eins og hv. þm. sagði áðan, ljúka framhaldsskólaprófi. Í Þýskalandi hefur það verið þannig um 30--40 ára skeið að það eru um 90% af hverjum árgangi sem ljúka einhvers konar starfsnámi eða framhaldsnámi. Þar er ekki alltaf um að ræða fjögurra ára nám. Stundum er um að ræða eins árs nám eða tveggja eða þriggja ára nám og þar er hægt að velja á milli margvíslegra stuttra starfsbrauta --- námsbrauta í framhaldsskólum þess lands. Í raun og veru er eitt brýnasta framfaramál á Íslandi sem hægt er að hugsa sér að efla þetta nám og skapa aðstæður til þess að það fari helst enginn sem býr við venjulegar aðstæður út í lífið öðruvísi en að hafa verkþjálfun og verkmenntun af einhverju tagi. Því er það skoðun Alþb., og var staðfest á þessum landsfundi okkar um daginn, að þetta sé sérstakt forgangsefni, verkefni sem við hlytum að leggja áherslu á. Þess vegna er þetta frv. í raun og veru flutt í beinum tengslum við okkar almennu stefnumótun í Alþb. og í samræmi við það sem við höfum áður sagt í þessum efnum.

Ég teldi sem sagt einlægast, herra forseti, að frv. yrði þegar í stað borið undir atkvæði því það eru enn þá betri hlutföll í salnum núna en þegar ég byrjaði ræðu mína. Nú eru þingmenn Alþb. og óháðra hér sex, einn frá Alþfl. og síðan einn úr Sjálfstfl. og því er augljóst að við höfum meiri hluta þannig að ef það væri hægt að kýla þetta frá með eðlilegum hætti eins og gerist í mörgum þingum þá gætum við losnað við þessa skatta núna á eftir. Það verður sennilega ekki þannig, herra forseti, og þess vegna styð ég tillögu fyrsta flm. um að málið fari fyrst til menntmn. og vonandi verður þingið svona vel skipað þegar það kemur þaðan.