Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:56:19 (1369)

1997-11-18 16:56:19# 122. lþ. 27.4 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:56]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 43 frv. til laga um breyting á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Meðflutningsmenn með mér að þessu frv. eru hv. þm. Kristján Pálsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðjón Guðmundsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Vilhjálmur Egilsson.

1. gr. hljóðar svo:

,,1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:

Slysatryggðir samkvæmt þessum kafla eru:

a. Launþegar sem starfa hér á landi, að undanskildum erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í íslensku skipi, skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið.

b. Nemendur við iðnnám samkvæmt iðnfræðslulögum.

c. Útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar.

d. Þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum.

e. Íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og orðið er 16 ára. Með reglugerðarákvæði má ákveða nánar gildissvið þessa ákvæðis.

f. Sjúklingar sem eru til meðferðar á sjúkrastofnunum sem starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og heilsutjónið eða örorkan er vegna læknisaðgerða eða mistaka starfsfólks sem starfar á þessum stofnunum.``

2. gr. hljóðar svo:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Í grg. segir m.a. svo:

,,Á seinni árum hefur mjög færst í vöxt að íslenskar skipaútgerðir noti í sínum rekstri skip sem skráð eru annars staðar en á Íslandi en manni þau eigi að síður með íslenskri áhöfn, alfarið eða að hluta til. Fá þessir sjómenn laun sín greidd frá hinu íslenska skipafélagi, greiða skatta og skyldur hérlendis og njóta sjómannaafsláttar, sbr. b-lið 68. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, til jafns á við sjómenn á skipum skráðum á Íslandi.

Í a-lið 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaganna er kveðið á um að launþegar sem starfa hér á landi séu slysatryggðir. Starf um borð í íslensku skipi, þ.e. skipi skráðu hérlendis, eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessu ákvæði. Í kjölfar hins hörmulega slyss þegar Dísarfell fórst í mars sl. kom í ljós að íslenskir sjómenn sem starfa um borð í skipum sem sigla undir erlendum fána en eru eigi að síður í þjónustu íslenskra skipafélaga hafa engan lagalegan rétt til slysatrygginga, þrátt fyrir að þeir greiði skatta af launum sínum til íslenska ríkisins. Hér er á ferðinni augljós mismunun sem byggist eingöngu á því hvort starfsmanni íslensks skipafélags er gert að sigla á íslenskum skipum félagsins eða þeim sem skráð eru annars staðar í heiminum.

Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á a-lið 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaganna að sjómenn sem starfa á skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi séu slysatryggðir á sama hátt og þeir starfsbræður þeirra sem starfa á skipum skráðum á Íslandi. Það leiðir af ákvæðum a-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaganna að til þess að vera slysatryggður samkvæmt þessum lið þarf sjómaður að fá laun sín greidd af íslenskri útgerð. Í þeim tilvikum sem íslenskt skipafélag leigir erlent skip með áhöfn sem fær laun sín greidd erlendis frá er ekki uppfyllt ákvæði laganna um að störf sjómanns um borð í íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi jafngildi störfum launþega sem starfa á Íslandi, sbr. a-lið 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaganna. Hugtakið íslenskt skipafélag getur eftir því sem við á tekið bæði til kaupskipa- og fiskiskipaútgerða, hvort sem félög eða einstaklingar standa að slíkum rekstri.``

[17:00]

Herra forseti. Ekki fyrir löngu birtist í Lögbirtingablaðinu svo hljóðandi auglýsing frá Tryggingastofnun ríkisins sem ég vil, með leyfi forseta, vitna til. Auglýsingin hljóðar svo:

,,Tilkynning frá slysatryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins.

Tryggingastofnun ríkisins mun ekki greiða slysabætur vegna slysa á sjómönnum á hentifánaskipum sem eiga sér stað eftir 31. des. 1997. Með hentifánaskipum er átt við skip sem skráð eru erlendis en gerð út af íslenskum aðilum. Vísað er til ítarlegrar greinargerðar Tryggingastofnunar ríkisins sem birtist í einu dagblaðanna þann 12. júní 1997.

Reykjavík, 23. sept. 1997.``

Í þessari tilvitnuðu grein sem birtist í dagblaði 12. júní 1997 segir svo, með leyfi forseta um slysatryggingu samkvæmt III. kafla almannatryggingalaga. Íslensk skip.

,,Samkvæmt 24. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993, eru launþegar sem starfa hér á landi slysatryggðir. Starf um borð í íslensku skipi eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi.

Við skilgreiningu á hugtakinu ,,íslenskt skip`` verður m.a. að horfa til 11. gr. almannatryggingalaganna, sem kveður á um rétt til ellilífeyris, og hefur verið breytt á þann veg að réttur sjómanna til ellilífeyris frá 60 ára aldri miðast við lögskráningu í tiltekinn tíma á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum.`` --- Það á við hentifánaskipin. --- ,,Slík breyting var hins vegar ekki gerð á 24. gr. laganna varðandi slysatryggingu og hlýtur því að verða að túlka ákvæðið svo að einungis sé átt við skip sem skráð eru hér landi. Réttur sjómanna til sjómannaellilífeyris samkvæmt almannatryggingalögum er þannig víðtækari en réttur til slysabóta samkvæmt sömu lögum. Enn fremur má benda á að samkvæmt 2. tölul. 2. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, er íslenskt skip hvert það skip sem skráð er hér á landi og rétt hefur til að sigla undir íslenskum fána. Því er ótvírætt að sjómenn er starfa um borð í hentifánaskipum geta ekki talist slysatryggðir samkvæmt almannatryggingalögunum.``

Það er enginn smáhópur. Af rúmlega 20 skipum eru aðeins fjögur skip skráð undir íslenskum fána þannig að meginhluti íslenskrar farmannastéttar er samkvæmt þessari skilgreiningu frá og með næstu áramótum ekki innan laga Tryggingastofnunar hvað áhrærir slysabætur. Síðan segir, herra forseti, í auglýsingunni frá Tryggingastofnun ríkisins um tryggingagjald:

,,Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. almannatryggingalaga skulu útgjöld slysatrygginga borin af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi. Á fjárlögum er þó sérstaklega ákveðið framlag til að standa straum af kostnaði vegna sjúklingatryggingar og slysatryggingar íþróttamanna.

Um tryggingagjald gilda lög nr. 113/1990. Í 1. gr. laganna segir að launagreiðendur skuli inna af hendi sérstakt gjald, tryggingagjald, af greiddum vinnulaunum, þóknunum, reiknuðu endurgjaldi og öðrum tegundum greiðslna og launa eftir því sem nánar segir í lögunum. Gjaldið skuli innheimt samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lagt á með opinberum gjöldum samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tekjum af tryggingagjaldi skal ráðstafa þannig að Atvinnuleysistryggingasjóður fái í sinn hlut 0,5% og Vinnueftirlit ríkisins 0,08%. Það sem eftir stendur rennur til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga. Því eru tengsl tryggingagjalds og slysatrygginga óbein, tryggingagjaldið sem slíkt er ekki iðgjald af slysatryggingu heldur hefur það verið skilgreint sem skattur.

Meginreglan varðandi sjómenn sem starfa á skipum, er sigla undir fána aðildarríkis EES-samningsins, er sú að þeir eiga að tryggja sig í fánalandinu. Ef sjómaður hins vegar þiggur laun frá íslenskum aðila (með aðsetur á Íslandi) þá er hann sjúkra-, slysa- og lífeyristryggður hér á landi þó svo skipið sigli undir fána annars aðildarríkis. Sjómenn á hentifánaskipum geta því verið slysatryggðir hér á landi svo framarlega sem þeir þiggja laun frá íslenskum aðila og skipið siglir undir fána aðildarríkis EES-samningsins.``

Hér hefur greinilega orðið á einhver misbrestur í túlkun Tryggingastofnunar ríkisins því að athyglisvert er að í auglýsingunni tala þeir um sérstök hentifánaskip en vilja þó ekki flokka þau undir þau skip sem sigla undir fána EES-svæðisins. Ég vek sérstaka athygli á síðustu málsgrein þessarar greinar þar sem talað er um EES-svæðið og Tryggingastofnun segir: ,,Sjómenn á hentifánaskipum geta því verið slysatryggðir hér á landi svo framarlega sem þeir þiggja laun frá íslenskum aðila og skipið siglir undir fána aðildarríkis EES-samningsins.`` En það er nú svo í skilgreiningu frá Alþjóðaflutningaverkamannasambandinu að ekkert skip siglir undir fána EES. (Gripið fram í.) Þeir eru ekki skilgreindir sem hentifánaskip þannig að hér hafa orðið einhver mistök og misskilningur þeirra aðila sem koma að málinu. En það er nú ekki stóra málið. Síðan segir áfram í auglýsingu Tryggingastofnunar ríkisins:

,,Í mars sl. tilkynnti Eimskipafélag Íslands um slys á sjómanni um borð í ms. Altona sem skráð er í Antiqua. Í kjölfar sérstakrar lögfræðilegrar skoðunar sem þetta mál fékk vegna nýlegra breytinga á starfsháttum í slysatryggingadeild var bótaskyldu synjað í ljósi ofangreindra staðreynda. Í maí var tveimur sams konar málum vegna ms. Dísarfells síðan synjað.``

Síðan segir í greinargerðinni frá Tryggingastofnunni:

,,Könnun á sjómálum í slysatryggingadeild. Eftir að synjun deildarinnar í Dísarfellsmálunum komst í hámæli og fulltrúar Eimskipafélags Íslands og Samskipa höfðu fullyrt að greiddar hefðu verið slysabætur í málum sjómanna á hentifánaskipum var ákveðið að fara ofan í kjölinn á afgreiðslu sjómála í slysatryggingadeild. Skoðuð voru tilkynnt sjóslysamál árið 1994--1996.

1996 voru tilkynnt samtals 434 sjómál. Í sex málum voru skip skráð erlendis, þar af voru bætur greiddar í þremur málum. Í hinum þremur málunum var ekki krafist bóta.

1995 voru tilkynnt samtals 459 sjómál. Í 12 málum voru skip skráð erlendis, þar af voru bætur greiddar í átta málum. Í hinum fjórum málunum var ekki krafist bóta.

1994 voru tilkynnt samtals 486 sjómál. Í 13 málum voru skip skráð erlendis, þar af voru bætur greiddar í fimm málum. Í hinum átta málunum var ekki krafist bóta.

Í öllum tilvikunum sem um ræðir hafði verið gengið úr skugga um að laun sjómanna væri gefin upp til skatts hér á landi.

Ofangreind könnun í tilkynntum sjóslysamálum síðustu þriggja ára leiddi í ljós að bætur hafa áður verið afgreiddar athugasemdalaust vegna slysa sjómanna á hentifánaskipum hafi laun þeirra verið greidd hér á landi.

Forráðamenn Eimskips munu hafa fengið upplýsingar um það frá starfsfólki slysatryggingadeildar að sjómenn á hentifánaskipum væru slysatryggðir ef laun þeirra hefðu verið gefin upp til skatts hér á landi og hefðu slík mál verið afgreidd athugasemdalaust. Því má telja að forráðamenn skipafélaganna hafi verið í góðri trú og ekki mátt ætla annað en slík mál yrðu áfram afgreidd eins og tíðkast hafði undanfarin ár. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, þ.e. að lík mál skulu afgreidd á líkan hátt. Einnig verður að gæta meðalhófs sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. að íþyngjandi ákvörðun skuli aðeins tekin þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti. Stjórnvaldi er heimilt að afturkalla ákvörðun sína að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga.``

Herra forseti. Hér hefur lögmaður Tryggingastofnunar ríkisins samið álitsgerð varðandi það mál sem upp kom þegar Tryggingastofnun ríkisins benti aðilum útgerðarkaupskipa hér á landi á þá staðreynd að ekki gætti samræmis í lögum hvað áhrærði skattalega meðferð hins svokallaða sjómannaafsláttar né heldur ellilífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.

Áfram segir svo í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins um mögulegar leiðir í málum hentifánaskipa:

,,Í fyrsta lagi er unnt að breyta lögum standi vilji löggjafans til þess. Í öðru lagi er tryggingaráði veitt heimild í 2. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga til að verða við beiðni íslensks fyrirtækis um slysatryggingu starfsmanna þess sem erlendis starfa. Heimild þessa mætti hugsanlega túlka á þann veg að hún næði einnig yfir sjómenn á hentifánaskipum sem þiggja laun frá íslenskum aðilum.

Að lokum mætti hugsa sér þá lausn að þau skipafélög sem kjósa að skrá skip sín erlendis þurfi einfaldlega að tryggja sjómenn á þeim skipum hjá vátryggingafélögunum.``

Í niðurstöðunni frá Tryggingastofnun segir:

,,Tryggingastofnun ríkisins telur að samkvæmt gildandi rétti sé ekki heimilt að greiða slysabætur vegna sjómanna er slasast við vinnu sína um borð í skipum sem skráð eru erlendis (að undanskildum ákveðnum tilvikum varðandi EES-svæðið eins og áður hefur komið fram)`` --- og þá talað um hentifána. --- ,,Til að svo væri unnt þyrfti lagabreytingu til eða sérstaka ákvörðun tryggingaráðs skv. 2. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga, en vegna þess sem áður er rakið skal veitt undanþága fram til næstu áramóta.``

Herra forseti. Það er af þessu tilefni sem frv. er flutt. Það er til þess að þeir sjómenn sem starfa á skipum undir hentifána, sem íslenskar kaupskipaútgerðir hafa tekið á leigu um stundarsakir, séu jafnir fyrir lögum eins og kollegar þeirra á skipum sem sigla undir íslenskum fánum. Vissulega væri æskilegast að til þessa máls þyrfti ekki að koma. Nauðsynlegt væri að tryggja það frekar að öll skip sem væru í þjónustu íslenskrar kaupskipaútgerðar væru undir íslenskum fána. Um það hef ég þegar flutt annað frv. til breytinga á lögum er varða stimpilgjöld en það er að gefnu tilefni en framkvæmdastjóri Sambands ísl. kaupskipaútgerða hefur lýst því yfir fyrir þeirra hönd að ýmsar álögur á skráningu skipa hér á landi séu með slíkum ólíkindum að hvergi þekkist annars staðar á Norðurlöndunum og m.a. getið þess að stimpilgjöld væru þar einn af meginþáttunum.

Herra forseti. Ég legg þetta mál hér til 2. umr. og að lokinni umræðunni legg ég til að þessu frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn.