Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 17:14:12 (1370)

1997-11-18 17:14:12# 122. lþ. 27.4 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:14]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Það er nokkur vandi að semja lög og til þess skyldu menn vanda verk sitt. Mér finnst það slæmt og harma að sex hv. þm. Sjálfstfl. skuli senda frá sér frv. til laga sem að mestu leyti byggjast á staðlausum stöfum. Mér þykir fyrir því að þurfa að segja þetta hreint eins og það er.

Sú breyting sem hv. þm. eru að leggja hér til í lögum um slysatryggingu, sem er 24. gr. almannatrygginga, er að þeir sem tryggðir eru til viðbótar við launþega sem starfa hér á landi að undanskildum, eins og segir í lögunum, með leyfi hæstv. forseta: ,,... erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í íslensku skipi,`` --- þetta er breyting, hæstv. forseti, sem þingmenn leggja til --- ,,skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið.``

Í grg. er vísað til hins hörmulega slyss þegar Dísarfell fórst og harmað að þeir sjómenn sem þar fórust hafi ekki verið slysatryggðir þrátt fyrir það að þeir hafi greitt skatta af launum sínum til íslenska ríkisins. Það kemur málinu ekkert við af því það hefur aldrei verið neitt skilyrði neins staðar í þessum lögum að menn hafi greitt skatta til íslenska ríkisins. Það eru nefnilega ekki einstaklingarnir sem greiða þessa slysatryggingu heldur er það atvinnurekandinn sem greiðir hana. Ástæðurnar fyrir þessari sorglegu niðurstöðu með sjómennina á Dísarfelli voru þær að ekki var um íslenskt skipafélag að ræða. Og hv. þm. hefðu getað komist að raun um að það hlaut að vera erlent skipafélag, á pappírnum a.m.k., sem rak Dísarfellið. Því í lögum nr. 115/1985, um skráningu skipa, stendur í 1. gr., og ég ætla ekki Eimskipafélagi Íslands eða Samskipum að brjóta þau lög:

,,Skráningarskylt eftir lögum þessum er sérhvert skip sem er 6 metrar á lengd eða stærra, mælt milli stafna. Rétt er að skrá skip hér á landi þegar íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskir lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi, eiga það.``

Það getur þess vegna ekki hafa verið Eimskipafélag Íslands eða Samskip sem áttu Dísarfellið. Eitthvert dótturfyrirtæki þeirra erlent hefur á pappírnum átt skipið og þess vegna voru sjómennirnir þar ekki tryggðir. Svo einfalt er það. Menn verða því ævinlega, þegar einum lögum er breytt að líta til annarra, þeirra laga sem um mál fjalla. Í 24. gr. almannatryggingalaganna eru öll tvímæli tekin af um það hverjir eru tryggðir vegna slysa við vinnu sína. Það eru sem sagt launþegar sem starfa hér á landi o.s.frv. eins og ég hef áður rakið. Síðan segir áfram í 1. gr. laga um skráningu skipa.

,,1. Íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi.

2. Íslenska lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara, sem eiga lögheimili hér á landi, eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði: a. Eru undir yfirráðum íslenskra aðila, b. Eru í eigu erlendra aðila að hámarki 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í öðrum lögaðila, sem er skráður eigandi skips, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.``

Ég er næstum því viss um að með þessu fylgist ekki nokkur maður. Málið er að þarna eru búin til pappírsfyrirtæki sem reka þessi skip sem eru mönnuð næstum því af farmannastéttinni eins og hún leggur sig og til viðbótar erlendum sjómönnum.

Ég veit hvað hv. þm. mun segja við þessu. Farið hefur verið fram á það við Tryggingastofnun ríkisins, sem því miður --- og ég verð bara að játa það --- hafði afgreitt rangt nokkrar umsóknir um slysatryggingar vegna vanþekkingar þeirra starfsmanna sem þar um fjölluðu og verða menn auðvitað ekki endurkrafnir um það, en það á ekki að réttlæta að vitleysunni verði haldið áfram. Sannleikurinn er sá að það er útilokað að Eimskipafélag Íslands og Samskip geti beðið um að fá að greiða af sjómönnum sem eru á erlendu skipi. Þetta getur ekki gengið. Auðvitað er engin lausn til á þessu máli, hæstv. forseti, önnur en sú að íslensk skip séu skráð á Íslandi. En ég er sannfærð um að það verður ekki auðsótt mál vegna þess að með því að flagga skipunum út til einhverra eyja í Kyrrahafi eða hvar sem það nú er, er hægt að losna við að greiða tryggingagjöld af áhöfninni, alls kyns skatta og skyldur og mér er stórlega til efs að menn greiði fulla skatta hér heima af þeim skipum út en það er önnur saga.

En það sem er siðlausast í öllu þessu máli er að þegar ég spurði deildarstjóra slysatrygginga- og sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins að því í dag hvort hann gerði sér ljóst að með frv. væri ekki verið einungis að tryggja Íslendingana um borð í þessum skipum heldur auðvitað alla áhöfnina enda stendur ekkert um það hvorki í frv. sem hér er til umræðu né í öðrum lögum, að gera skuli upp á milli manna í sömu skipshöfn. Ég fékk skýringuna strax. Ójú, það er nefnilega hugmyndin. Eimskipafélagið og Samskip --- hin íslensku skipafélög, ætla að borga tryggingagjald af Íslendingunum, hinir mega róa vegna þess að þeir þiggja laun af hinu raunverulega skipafélagi sem rekur skipið á einhverjum eyjum í Kyrrahafi. Ég vil spyrja forustumann íslenskra sjómanna, hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, hvort hann leggi blessun sína yfir það að látið verði viðgangast að greidd séu tryggingagjöld af Íslendingunum um borð í þessum útflögguðu skipum en ekki öðrum áhafnarmeðlimum. Því trúi ég ekki. Auk þess sem ég held að það sé fullkomlega ólöglegt. Ég vil spyrja hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, af því ég veit að hann veit þetta betur en ég: Getur sama skipið verið rekið af tveim skipafélögum hvort í sínu landinu, þar sem kannski tveir, þrír yfirmenn eru launþegar hjá hinum íslenska hluta en afgangurinn af áhöfninni er ráðinn af erlendu fyrirtæki á eyju í Kyrrahafi eða einhvers staðar á grísku eyjunum eða hvar sem þessi skip eru nú skráð? Þetta getur auðvitað ekki gengið. Og ég get ekki séð að þetta frv. geti náð fram að ganga nema lögum nr. 115 frá 1985, um skráningu skipa, verði breytt því í þeim lögum segir m.a. að háar og þungar refsingar liggi við því að gefa ekki upp rétt þjóðerni skipa o.s.frv. Auðvitað er verið að svíkja og fara á bak við þessi lög um skráningu skipa með því að erlend dótturfyrirtæki greiða mönnum frá Filippseyjum eða Kína laun eða ódýru vinnuafli einhvers staðar að úr heiminum, en síðan eru yfirmenn á skipinu á launaskrá hjá íslensku skipafélögum á Íslandi. Ég ítreka þetta við hv. þm., sem hefur talið sig vera í forsvari fyrir sjómenn, getur hann sætt sig við annað eins og þetta? Því auðvitað eru þetta bara svik, þetta er að fara á bak við lögin.

Það er stórlega vandræðalegt að Tryggingastofnun ríkisins skuli þurfa að auglýsa að hún muni hætta að gera vitleysur 1. janúar 1998. Það er þó kannski betra seint en aldrei. Og það vill nú svo til að þau slys eru ekki mjög mörg sem hafa verið tilkynnt --- og af hverju skyldi það nú vera? Það skyldi þó aldrei vera vegna þess að það hafa mestan part verið fátækir sjómenn frá Filippseyjum og öðrum vanþróuðum löndum sem hafa slasast um borð í þessum skipum og þá hefur ekki verið beðið um neinar slysatryggingar. Það hefur nefnilega enginn haft áhuga á því. Hafi þeir látist hefur lítt verið hirt um að þeir sjómenn kynnu að hafa átt fjölskyldur heima sem áreiðanlega eru ver settar heldur en hvaða íslensk fjölskylda sem væri. Þetta er nefnilega ekki falleg saga, hæstv. forseti, og allt þetta mál satt að segja með mestu endemum.

Í stuttu máli sagt hefur það enga þýðingu í þessu máli hvort menn greiða skatta af launum sínum eða ekki. Að menn greiði skatta til síns eigins lands hefur aldrei verið skilyrði fyrir því að vera slysatryggður vegna þess að slysatryggingin er, eins og hv. þm. rakti áðan, greidd af atvinnurekendum. Það fé er sett í sérstakan sjóð sem ekki gengur eingöngu til að bæta slys á launþegum, sem betur fer, heldur er hann líka nýttur af ríkissjóði --- og það má kannski deila um hvort það er réttlætanlegt, en sem betur fer hefur ekki verið þörf fyrir alla þá peninga til að bæta fyrir vinnuslys og ekki skal harma það. Þetta eru þess vegna engin rök og ætti að strikast út úr grg. frv.

Síðan segir í seinni hluta grg., með leyfi hæstv. forseta:

,,Í þeim tilvikum sem íslenskt skipafélag leigir erlent skip með áhöfn sem fær laun sín greidd erlendis frá er ekki uppfyllt ákvæði laganna um að störf sjómanns um borð í íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi jafngildi störfum launþega sem starfa á Íslandi.`` Þetta þýðir ósköp einfaldlega á mannamáli að sé skipið leigt eingöngu með útlendingum, sé einfaldlega leigt með áhöfn, þá er skýrt tekið fram að þetta eigi ekki við um þá áhöfn. Og af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að þessir menn eru að vinna hjá erlendu fyrirtæki og almannatryggingalögin ná ekki yfir það og frv. hv. þm. bjargar engu um það því þar segir ,,skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi``. Þau virðulegu fyrirtæki, Eimskip og Samskip, eru með á sínum snærum ótal fyrirtæki sem heita hinum og þessum nöfnum, í hinum og þessum löndum, og það eru ekki íslensk fyrirtæki. Ég vil endurtaka, af því ég hef smám saman lært að segja oftar en einu sinni það sem þarf að segja --- ég held að það sé stundum nauðsynlegt --- að það er lögskylda. Hér segir, með leyfi forseta: ,,Rétt er að skrá skip hér á landi þegar íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskir lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi, eiga það.``

Ég vænti að það eigi við bæði Samskip og Eimskip. Þess vegna var Dísarfellið ekki íslenskt skip. Það var hvorki rekið af Eimskipafélaginu né Samskipum. Og það var harmsaga þeirra sem misstu sína nánustu í því sjóslysi.

Ég veit því ekki hvernig hægt er að bjarga hv. flm., sem eru sex hv. þm. Sjálfstfl. og allir nokkuð vel kunnugir sjómennsku og sjósókn, út úr þessu vandræðamáli. Þó að frv. yrði að lögum --- ég vona að hv. alþingismenn hugsi sig tvisvar um áður en þeir samþykkja það óbreytt --- þyrfti að vinna í ýmsu fleiru áður en málinu væri bjargað. Málið er ósköp einfalt: Launþegar sem starfa erlendis hjá erlendum fyrirtækjum eru ekki slysatryggðir á Íslandi. Og það getur heldur ekki verið að einhver hluti áhafna slíkra skipa geti orðið slysatryggður hér á landi en aðrir ekki. Það segir sig sjálft. Þannig að mér sýnist að þetta mál sé hið versta og rökin, satt að segja, fyrir frv. gjörsamlega út í hött.

[17:30]

Það breytir bara ekki nokkrum sköpuðum hlut hvort menn telja fram til skatts á Íslandi þó þeir séu á þessum skipum. Aðalatriðið er hjá hvers konar fyrirtæki þeir vinna og það þarf að vera íslenskt sem þessi skip ,,per definition`` eru ekki. Ég held að eina leiðin væri þá, ef menn vilja það, sem ég tek fram að ég vil ekki, að þessi skip fái að skilgreina sig á annan hátt.

Það að hv. þm. kvað annað gilda um skip sem sigldu undir hentifána landa innan Evrópusambandsins er nú einfaldlega broslegt vegna þess að auðvitað eru engin slík skip. Þar yrðu menn að haga sér eins og menn gera meðal siðaðra manna að greiða skatta og skyldur af sínu starfsfólki, borga fólki laun sem hægt er að lifa af, slysatryggja það og annað slíkt. Auðvitað er tilgangurinn með þessari útflöggun sá, því miður, að fara með fólk á þann veg sem við viljum ekki og græða peninga á því, svo einfalt er það. Ég vildi óska þess að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem ég efast ekki um að gengur gott eitt til með þessu frv., hugsaði sinn gang mjög vandlega áður en þetta mál yrði keyrt í gegnum nefnd án þess að menn athuguðu vel hvað þeir eru að gera. Þarna rekur sig hvað á annars horn og væri engum til sóma yrði það samþykkt. Ég á ekki von á að við, hv. íslenskir þingmenn, séum tilbúnir til þess að samþykkja að með smávegis bellibrögðum geti þessi stóru flutningafyrirtæki slysatryggt yfirmenn sína á þeim skipum sem flaggað hefur verið út, sem eru næstum öll skip þeirra, en ekki áhöfnin sjálf sem er frá öðrum ríkjum sem ekki þekkja slíkar tryggingar og virðist litlu skipta hvort særast eða deyja því lítið hefur verið sótt um slysatryggingar handa þeim.

Ég vil því, hæstv. forseti, leggja til að sú hv. nefnd, allshn. á ég von á að (Gripið fram í: Heilbr.- og trn.) ég bið afsökunar, hv. heilbr.- og trn., sem fær þetta mál til umfjöllunar skoði vel bæði lög um skráningu skipa og lög um almannatryggingar áður en rokið verður í að samþykkja þetta. Menn láta stundum glepjast af góðmennsku sinni eins og gerðist í þessu tilviki og það er svo sem ósköp eðlilegt þegar svona hörmungar dynja yfir, en það má auðvitað ekki verða til þess að lög sem eru nokkuð skýr séu flækt á þann hátt að enginn botni neitt í neinu og sú stofnun sem fer með stærstan hluta almannafjár í landinu þurfi að auglýsa að frá næstu áramótum muni hún ekki gera sömu vitleysuna og hún er búin að gera á undanförnum árum. Ég held að við verðum að vanda okkur mjög vel svo það komi aldrei til þess aftur.