Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 17:41:22 (1372)

1997-11-18 17:41:22# 122. lþ. 27.4 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:41]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Okkur gengur ofurlítið erfiðlega stundum, hv. 10. þm. Reykv. og mér, að skilja hvort annað en með þolinmæðinni held ég nú að það ætti að takast. Skip sem eru í leigu. Ef íslensku skipafélögin leigja skip, þá er það skip í eigu útlendinga og þar er þetta mál ekkert á dagskrá. Þó að Íslendingar kynnu að vinna um borð í þeim skipum, þá geta þeir ekki verið tryggðir þar um borð. Ellilífeyrir kemur þessu máli heldur ekkert við og sannleikurinn er sá að þann tíma sem íslenskir sjómenn vinna hjá fyrirtæki, skráðu erlendis, eru þeir í störfum erlendis. Svo einfalt er það. Það er ekki af því að ég vilji ekki tryggja betur kjör þeirra góðu sjómanna sem eru á þessum skipum. Það skelfilega er að þeir gera sér kannski ekki alveg ljóst hvernig þeirra staða er eins og raunar kom skýrt í ljós þegar Dísarfellið fórst á síðasta ári. Menn virtust ekki hafa hugmynd um hver staða þeirra væri. Eftir stendur að hafi stóru skipafélögin hér greitt einhverjum hluta sinna manna laun eins og þeir væru á íslensku skipi, þá hafa þeir í raun og veru að farið á bak við lagaskyldu sína því að skip í eign íslenskra lögaðila með heimili hér, skal vera skráð á Íslandi. Ég vona að hv. þm. skilji það sem ég er að segja. Þeir geta ekki bæði sleppt og haldið. Ef þeir gera út skip sem á heima á Íslandi, þá er það íslenskt skip með íslenskum fána. Ef þeir gera út erlent skip undir erlendum fána, þá er það skip skráð annars staðar, enda heyra þau skip undir lögsögu þeirra landa. Ég vil minna hv. þm. á að hæstv. dómsmrh. Þorsteinn Pálsson svaraði því alveg kórrétt einhvern tíma þegar slíkt skip var fært til hafnar í Noregi, að það væri ekki sitt mál þar sem þar væri um að ræða skip undir erlendum fána. Það var hárrétt hjá honum. Hann skildi greinilega um hvað það mál snerist þannig að þetta mál er ekki eins einfalt og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson heldur að það sé.

Ég er ansi hrædd um að það eigi eftir að vefjast nokkuð fyrir Tryggingastofnun ríkisins að framkvæma lagaákvæði það sem hv. þm. er að leggja til. Ég held að það þurfi að skoða það miklu betur. Ég vona svo sannarlega að við tökum ekki þátt í þeim ljóta leik hér uppi á Íslandi að hirða hvergi um kjör skipverja sem eru á skipum sem vissulega eru í eigu íslenskra aðila þó að þeir þykist ekki eiga þau og skrái þau einhvers staðar annars staðar. Og ég vona svo sannarlega að sjómannasamtökin hér á Íslandi telji sig ekki vera laus allra mála gagnvart þeim mönnum sem eru á þessum skipum, réttlausir í alla staði og launalitlir.

Ég vil spyrja hv. þm.: Hvað heldur hann að Borgþór Kjærnested hafi verið að gera fyrir hönd sinna samtaka, Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins, þegar hann hefur verið að fara um borð í þessi skip þar sem sjómönnum hefur verið bannað að tala við blaðamenn. Þetta eru þrælar en ekki launþegar. Það getur vel verið að einhverjir Íslendingar séu svo langt leiddir að þeim sé alveg sama um að slíkt fólk sé að afla tekna fyrir íslenskt samfélag. Ég vona svo sannarlega ekki.

Ég vildi bara benda á þessa skafanka án þess að ég sé að væna hv. þingmenn um að vilja ekki allt hið besta með þessu frv. Ég get heldur ekki ímyndað mér að Eimskip og Samskip séu að brjóta lög með því að skrá skipin erlendis en haga sér eins og þau séu hér heima. Ég get ekki ímyndað mér það þannig að ég verð að gera ráð fyrir að þessi skip séu rekin af einhverjum skúffufyrirtækjum sem heita eitthvað annað en Samskip og Eimskipafélag Íslands. Ef svo er ekki, þá þarf að bara senda pólitíið á kontórana því að þá eru þessi góðu félög að brjóta lög. Hér stangast á lög nr. 115/1985, um skráningu skipa. Og Siglingamálastofnun Íslands ætti svo sannarlega að kanna hvort það er ekki rétt hjá mér að þetta hljóti að vera svona.

Hæstv. forseti. Ég skal svo sem ekki vera að eyða meiri tíma í þetta. Þó að hv. þm. hafi áhyggjur af vanþekkingu minni á þessu máli þá er ég jafnsannfærð um að ég þekki þetta mál allvel, varð enda til þess að þetta mál komst á dagskrá þegar Dísarfellið fórst vegna þess að mér var fullkomlega ljóst að það gat ekki staðist að þessir menn væru slysatryggðir hér. Og það var, guð veit, ekki vegna þess að ég vildi hafa þetta fólk ótryggt. Ég tók þátt í að gera þarna undantekningu á afgreiðslu Tryggingastofnunar sem í raun og veru hafði enga stoð í lögum og við gerðum okkur öll grein fyrir því. Þess vegna er nú til komin auglýsing Tryggingastofnunar.

Ég vona, hæstv. forseti, að sjómannasamtökin, skipafélögin, Tryggingastofnun ríkisins og Alþingi allt geti fundið á þessu einhverja lausn sem er mannsæmandi fyrir alla aðila.