Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 17:47:59 (1373)

1997-11-18 17:47:59# 122. lþ. 27.4 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:47]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Lokaorð hv. þm. voru einmitt um það að finna lausn á þessu máli sem allir gætu sætt sig við og það var einmitt það sem ég gerði með því að leita til Tryggingastofnunar ríkisins með frv. eins og það hefur verið lagt fyrir hið háa Alþingi. Þar eru menn á einu máli um að það nái þeim tilgangi sem ætlast er til. Í fyrsta lagi vegna þess að í alþjóðlegum leigusamningum sem við þekkjum bæði varðandi flugvélar og skip, þá er það algengt að aðilar taka á leigu skip í svokallaða þurrleigu, án áhafnar, og skipið er undir erlendum fána. En vegna þess sem ég gat um áðan og hef flutt frv. um, stimpilgjöld og annan kostnað sem er af íslenskum kaupskipum versus enginn af flugvélum, að ef sams konar kostnaður væri og er á kaupskipum við skráningu flugvéla hér á landi, þá væri allur Atlantaflotinn ekki undir íslenskum fána og sennilega fæstar þotur Flugleiða. En það er annað mál.

En það sem ég vildi koma inn á er fyrst og fremst það sem hv. þm. sagði um að íslensk sjómannasamtök hirtu ekkert um kjör erlendra aðila. Það er af og frá. Hún nefndi Borgþór Kjærnested. Hann er fulltrúi Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins og fylgist með því að aðilar á þeim erlendu leiguskipum sem koma hér í tímaleigu eða þurrleigu njóti ekki lakari kjara en Alþjóðaflutningaverkamannasambandið hefur samið um. Í mörgum tilfellum eru kjör íslenskra farmanna sem betur fer betri en þeirra aðila sem sigla undir samningi Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins.

En það var athyglisvert hins vegar að heyra þingmanninn tala um að menn hefðu ekki haft hugmynd um stöðuna. Þegar lögunum var breytt varðandi greiðslu ellilífeyris frá 60 ára aldri, þar sem miðast við lögskráningu, var þeim breytt í þá veru að menn á skipum undir erlendum fána, á skipum íslenskrar útgerðar í leigu, mundu ávinna sér sams konar rétt til ellilífeyris, eins og verið er að flytja hér með þessu frv. Fordæmið er því til. Það var sett hér nýlega, en því miður sást mönnum yfir að gera þá breytingu á almannatryggingalögunum sem við erum að leggja til núna.