Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 17:53:51 (1376)

1997-11-18 17:53:51# 122. lþ. 27.2 fundur 39. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:53]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Margréti Frímannsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það verkefni að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Nefndin skal skipuð fulltrúum félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, aðila vinnumarkaðarins og samtaka um málefni sjúkra barna. Í starfi sínu hafi nefndin hliðsjón af fjármögnun, fyrirkomulagi og réttindum sem gilda um bætur fyrir launatap aðstandenda sjúkra barna annars staðar á Norðurlöndum.

Niðurstaða nefndarinnar skal lögð fyrir Alþingi á haustþingi 1998.``

Í kjarasamningum hér á landi hefur verið samið um að starfsmaður gæti ráðstafað allt að 7 dögum á ári á launum vegna veikinda barna sinna. Auk þess eru í reglum einstakra sjúkrasjóða að þeir greiði styrki og jafnvel dagpeninga vegna fjarveru foreldra frá vinnu í veikindum barna sinna. Hið opinbera veitir enga fjárhagsstyrki eða bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna en því er öðruvísi háttað á hinum Norðurlöndunum.

Umönnunarbótum sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir er ætlað að koma til móts við kostnaðarauka og aðrar auknar byrðar sem hljótast af aukinni umönnun barns þegar það veikist alvarlega en eru ekki bætur vegna launataps aðstandenda langsjúkra barna. Umönnunarbætur eru nú greiddar vegna 2.000 barna, þar af eru um 500 langveik börn. Má einnig benda á að þegar meðferð barna t.d. með krabbamein lýkur lækka umönnunarbætur verulega án tillits til þess hvort foreldrið sem hætti að vinna þegar barnið veiktist hafi getað hafið störf að nýju. Umrædd börn þurfa oft langa aðlögun áður en þau geta lifað því sem kallað er eðlilegu lífi eftir meðferðina og sum þeirra búa við varanlegar afleiðingar sjúkdómsins. Hjá Tryggingastofnun ríkisins er litið á þetta tímabil sem létta umönnun og því um lága greiðslu að ræða, en þarna verður hvað mest þörf á bótum vegna tekjutaps.

Rétt foreldra vegna veikinda barna er ekki hægt að flytja milli ára, t.d. ef barn hefur ekki verið veikt í tvö ár en er svo veikt í 14 daga í einu. Rétturinn tekur einungis til barna undir 13 ára aldri og sjö daga rétturinn á ári tekur til allra barna foreldranna. Á hinum Norðurlöndunum nær hann ýmist til 16 eða 18 ára aldurs en 13 ára aldurs hér og heimilaður dagafjöldi nær til hvers barns um sig innan fjölskyldunnar, t.d. 120 dagar á ári fyrir hvert barn í Svíþjóð.

Ljóst er að stuðningur hins opinbera er enginn vegna launataps aðstandenda sjúkra barna ef undan eru skildar umönnunarbætur til að mæta útgjöldum og kostnaði vegna fatlaðra og langsjúkra barna. Kjarasamningar veita líka óverulegan rétt borið saman við hin Norðurlöndin. Munurinn á rétti á fjarveru vegna veikinda barna hér á landi og hinum Norðurlöndunum er svo sláandi að nauðsynlegt er að brjóta þetta mál til mergjar og leita leiða til að tryggja betur réttindi barna í veikindum til að njóta umönnunar foreldra sinna.

Þegar gerður er samanburður á rétti foreldra vegna veikinda barna á Norðurlöndum kemur í ljós að Ísland sker sig mjög úr. Þannig hafa foreldrar íslenskra barna nánast hverfandi rétt samanborið við rétt foreldra á hinum Norðurlöndum.

Á Íslandi eru einungis greiddir sjö veikindadagar að hámarki, eins og áður hefur komið fram, fyrir börn undir 13 ára aldri án tillits til alvarleika sjúkdómsins, fjölda barna eða hjúskaparstöðu.

Í Svíþjóð eru greidd 90% laun í 120 daga á ári fyrir hvert barn til 16 ára aldurs.

Í Finnlandi eru greidd 66% af launum í allt að 90 daga á ári til beggja foreldra ef nauðsyn krefur og lengur vegna langsjúkra barna.

Í Noregi eru greiddir 780 veikindadagar, þar af 100% í laun í 260 daga og síðan 65% laun í 520 daga fyrir hvert barn til 16 ára aldurs. Fyrir liggur í Noregi að auka þann rétt enn frekar.

Í Danmörku eru greidd 90% af launum annars foreldris meðan á meðferð stendur. Launauppbót má síðan greiða í þrjá mánuði til aðlögunar fyrir barn eftir að meðferð lýkur. Endurgreiðsla nauðsynlegs kostnaðarauka vegna umönnunar barna er greidd til 18 ára aldurs.

Á hinum Norðurlöndunum greiðir hið opinbera að mestu bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna. Hér á landi er stuðningur hins opinbera enginn vegna launataps aðstandenda sjúkra barna ef undan eru skildar umönnunarbæturnar.

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu til að flytja þetta mál inn á þing og fylgja því eftir og farið sé ofan í hversu mikill mismunur er á aðbúnaði og rétti foreldra vegna veikinda barna sinna. Það kemur fram í töflum með þessari till. til þál. hver mismunurinn er og líka, herra forseti, hvað við verjum miklu minna almennt til málefna barna hér á landi en annars staðar og er þá sama hvort litið er til barna, aldraðra eða öryrkja. Við verjum hlutfallslega miklu minna en aðrar þjóðir í þá velferðarmálaflokka. Og það er einmitt athyglisvert þegar við erum að tala um veik börn og hve lítinn rétt þau hafa að á Íslandi eru þó hlutfallslega miklu fleiri börn en annars staðar á Norðurlöndum, og er það sláandi mikill munur, en síðan eru útgjöld á íbúa sem hlutfall af landsframleiðslu langlægst hér á landi. Það er um 42 þús. hér á íbúa meðan það er frá 72 upp í 87 þús. kr. á hinum Norðurlöndunum.

[18:00]

Það er sama, virðulegi forseti, hvar borið er niður. Við tölum stundum um mikla útþenslu á velferðarkerfinu en þegar grannt er skoðað, þá erum við þar langt að baki hinum Norðurlandaþjóðunum hvernig við búum að börnum, öldruðum og öryrkjum.

Það er ástæða til að minna á það að þingflokkur jafnaðarmanna hefur á þessu þingi flutt fjölda mála sem með einum eða öðrum hætti lúta að því að bæta hag barna í þjóðfélaginu og er það í samræmi við þá þáltill. sem var samþykkt á síðasta þingi um að marka opinbera fjölskyldustefnu.

Virðulegi forseti. Þó að þeirri stefnu sjái víða stað í málefnum stjórnarandstöðunnar, þá sér þess ekki stað í flutningi frumvarpa frá ríkisstjórninni að hún ætli sér að fylgja eftir þeirri stefnu sem hún fékk samþykkta á þingi um að marka opinbera fjölskyldustefnu. Ég held að alveg ljóst sé, virðulegi forseti, nema annað komi í ljós, að ríkisstjórnin ætlar að hafa þá ályktun, sem var samþykkt á Alþingi um mörkun opinberrar fjölskyldustefnu, sem pappírsplagg í skúfunni og ég er sannfærð um að engin breyting verður þar á fyrr en jafnaðarmenn og félagshyggjufólk hafa tekið við stjórnartaumunum í Stjórnarráðinu.

Ég vil í lokin, vegna þeirrar tillögu sem ég mæli fyrir, benda á að tilskipun Evrópusambandsins frá 30. júní 1996, um rammasamning um foreldraorlof, hlýtur einnig að koma til skoðunar í því sambandi þegar skoðaður er réttur foreldra vegna veikinda barna. Þar eru gerðar lágmarkskröfur um foreldraorlof og tímabundið leyfi frá starfi af óviðráðanlegum ástæðum.

Tilskipunin lýtur í meginatriðum að rétti foreldra til foreldraorlofs en samkvæmt rammasamningnum er tímabundið leyfi frá starfi af óviðráðanlegum ástæðum skýrt þannig, með leyfi forseta:

,,Aðildarríkin og/eða aðilar vinnumarkaðarins skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir sem tryggja launþegum leyfi frá störfum, í samræmi við landslög, kjarasamninga og/eða réttarvenjur, þegar um óviðráðanlegar fjölskylduaðstæður er að ræða, svo sem þegar sjúkdóma eða slys ber að höndum, og launþegi verður að hverfa tafarlaust af vettvangi.``

Þannig tekur þetta ákvæði tilskipunarinnar til fjölskylduábyrgðar af öllum sviðum, t.d. veikinda barna, og á að tryggja að börn geti í veikindum notið umönnunar foreldra sinna. Tilskipunin felur í sér sjálfstæðan rétt foreldris til orlofs/foreldraorlofs í þrjá mánuði vegna hvers barns sem hægt sé að taka til allt að átta ára aldurs barnsins.

Enn fremur kemur fram að aðildarríkin skuli samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli eigi síðar en 3. júní 1998 eða fullvissa sig um að aðilar vinnumarkaðarins hafi í síðasta lagi þann dag lögfest þessi ákvæði með samningi, enda ber aðildarríkjunum að gera nauðsynlegar ráðstafanir þannig að þau geti ætíð tryggt framkvæmd ákvæða þessarar tilskipunar. Aðildarríkin geta fengið að hámarki eitt ár til viðbótar ef á þarf að halda vegna sérstakra örðugleika eða vegna framkvæmdar kjarasamninga.

Herra forseti. Á þessa tilskipun er hér bent því að hún hlýtur að koma sérstaklega til skoðunar hér á landi, bæði vegna framkvæmdar á foreldraorlofi og rétti barns til umönnunar foreldra sinna í veikindum og rétti foreldra til leyfis frá vinnu vegna veikinda barna sinna.

Herra forseti. Það hefði auðvitað verið full ástæða til að hæstv. félmrh. væri viðstaddur þessa umræðu til að heyra hvort í undirbúningi sé á hans vegum eða ráðuneytis hans að framfylgja þessari tilskipun.

Herra forseti. Ég ætla ekki hafa fleiri orð um þessa tillögu en vona að hún fái góða umfjöllun í þeirri nefnd sem tekur hana til umræðu og að hún komi aftur til þingsins þannig að við fáum að greiða um hana atkvæði. Að lokum er mér nokkur vandi á höndum um til hvaða nefndar eigi að vísa þessu máli sem gæti verið bæði heilbr.- og trn. eða félmn. en að athuguðu máli vil ég gera tillögu um að vísa málinu til heilbr.- og trn. en mundi óska eftir því þegar hæstv. forseti ber málið undir atkvæði að minni ósk verði komið á framfæri um að heilbr.- og trn. leiti umsagnar félmn. um málið.