Goethe-stofnunin í Reykjavík

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:18:40 (1379)

1997-11-18 18:18:40# 122. lþ. 27.10 fundur 256. mál: #A Goethe-stofnunin í Reykjavík# þál., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:18]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það mál sem hér er flutt og ég vona svo sannarlega að það geti stuðlað að endurskoðun ákvörðunar þýskra stjórnvalda í þessu efni þannig að Goethe-stofnunin geti starfað áfram. Ekki þarf að orðlengja hversu mikilvægu hlutverki hún hefur gegnt hér á landi síðustu tvo áratugi eins og kemur glögglega fram í greinargerð með tillögunni. Mér finnst líka ástæða til þess að taka undir þakkir til hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fyrir að hafa haft frumkvæði að því að taka málið upp á þinginu. Ég vænti þess að stuðningur sé við það að meðferð þess sé hraðað. Ég tek einnig undir að utanrrh. brást skjótt við og tillöguflutningurinn er vissulega stuðningur við það sem hann hefur gert og ég vona að við getum jafnvel fjallað um tillöguna aftur fyrir jól.