Landgræðsla

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:56:31 (1387)

1997-11-18 18:56:31# 122. lþ. 27.9 fundur 83. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntur) frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:56]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það frv. sem ég mæli fyrir, 83. mál þingsins, er frv. til laga um breyting á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum, flutt af þeim sem hér talar ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Kristínu Halldórsdóttur.

Efni þessa frv. hefur áður verið kynnt á þingi þar sem frv. hefur raunar þegar komið fram á 118. þingi og verið endurflutt síðan en ekki hlotið afgreiðslu. Málið hefur verið til athugunar hjá hv. landbn. þingsins og fengið þar nokkra skoðun, að mér er kunnugt, en ekki borist frá nefndinni.

Efni frv. er að settar verði lagastoðir til að byggja á við reglur, sérstaklega varðandi notkun plantna og einstakra plöntutegunda í landgræðslu, og raunar gerð tillaga um að breyta 1. gr. laganna um landgræðslu til þess að renna styrkari stoðum undir þær tillögur sem lagðar eru fram um reglur um innflutning plantna og not innfluttra plantna í landgræðslustarfi.

Í bráðabirgðaákvæðum með lögunum er að finna ákvæði um að leggja skuli mat á tegundir sem þegar eru teknar til notkunar þannig að það komi einnig til skoðunar. Í seinna ákvæði til bráðbirgða er gerð tillaga um að landbrh. í samráði umhvrh. skipi nefnd til að endurskoða lögin um landgræðslu í heild sinni og að lagt verði fram frv. til nýrra laga um það sem kallað er í frv. gróður- og jarðvegsvernd og landgræðsla fyrir lok ársins 1998. Allt er þetta rökstutt í greinargerð með frv., sem er allítarleg, og m.a. fjallað um efnisþætti sem þyrftu að koma til athugunar varðandi nýja löggjöf um gróðurvernd og landgræðslu út frá þeim mjög svo breyttu viðhorfum sem ríkja frá því að löggjöfin var fyrst sett 1965 og í raun aldrei verið lagt í heildarendurskoðun þeirra laga síðan. Auðvitað er sú löggjöf orðin úrelt í raun og viðhorf hafa breyst og upplýsingar og rannsóknir vísa að mörgu leyti til annarra átta en fyrirmæli laganna segja til um. Þarna er því um brýnt mál að ræða.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara í mikla efnisumræðu um málið þar sem það hefur verið kynnt áður. Ég minni þó á að við flutningsmenn höfum leitast við að breyta eða koma fram með nýjar ábendingar í greinargerð frá ári til árs eftir því sem nýjar upplýsingar hafa komið fram, m.a. að því er varðar ábendingar um þætti inn í nýja löggjöf, endurskoðaða löggjöf á sviði gróðurverndar. Og þá með það í huga að haldnar hafa verið ráðstefnur um þessi mál. Hér kom t.d. sérstakur ráðgjafi frá Ástralíu fyrir stjórnvöld eða Landgræðslu ríkisins, ég man ekki hver hafði frumkvæði að því, og flutti erindi um viðhorf í því landi til löggjafar og starfsaðferða. Það var mjög verðmætt innlegg.

[19:00]

Ég hef oft heyrt hin síðari ár væntingar hæstv. ráðherra, ég held að það eigi lengri sögu en núv. hæstv. landb.- og umhvrh., að menn ætluðu sér að gera atrennu að því að endurskoða lögin. En þetta gengur afar hægt og ég tel tæplega vansalaust, svo ég hagi orðum mínum varlega í þessum efnum, að á svo mikilvægu sviði skuli ekki vera unnið hraðar. Hvað varðar efnisþáttinn um notkun einstakra innfluttra plantna í landgræðslu má ekki dragast að settar verði reglur og ég tel að öll umræða, rannsóknir og samþykktir, þar á meðal alþjóðasamþykktir, styðji þá stefnu sem lögð er fram með frv. Ég er ekki að segja að þar megi ekki eitthvað til betri vegar færa að bestu manna yfirsýn þegar fjallað verður um málið. Ég vísa þá til þess að við endurmótun á frv. hefur m.a. verið tekið tillit til umsagna frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem kom með gildar ábendingar inn í málið fyrir einu og hálfu ári eða svo. Gerð var breyting þegar málið var lagt fram á síðasta þingi, þá var það tekið inn í málið til þess að halda því til haga sem flm. töldu alveg réttmætt.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að vekja upp umræður um þau miklu álitamál sem eru uppi en lýsi þó verulegum áhyggjum í sambandi við stöðu mála, vinnubrögð af hálfu opinberra stofnana í þessum málum þar sem mikið skortir á að þeirrar varúðar sé gætt sem skylt ætti að vera í sambandi við náttúru landsins. Ég óttast mjög að það eigi eftir að sýna sig að sá vandi, sem við erum að safna í með heldur ógætilegu framferði okkar í sambandi við þessi efni, eigi eftir að magnast og menn eigi eftir að standa frammi fyrir því áður en langur tími líður að vandamálið er stórfellt. Það verður mjög erfitt og kostnaðarsamt fyrir þjóðina að breyta þar til og færa það til annars og betri vegar sem hefur farið aflaga í þessum efnum.

Þessar almennu ábendingar leyfi ég mér að leggja fyrir án þess að fara út í einstaka efnisþætti. Nokkuð má lesa út úr fylgigögnum með málinu um reynsluna eins og hún liggur nú fyrir, áhyggjur vísindamanna og rannsóknaraðila um þessi efni. Mér er fullkunnugt um að skoðanir eru allnokkuð skiptar hjá mönnum í þessum efnum en mér finnst að ekki sé alltaf gætt fræðilegra sjónarmiða heldur blandist inn í þau efni rök af öðrum toga og, að mínu mati, oft ekki nægilega vel grunduð án þess að það verði rakið hér frekar.

Ég treysti því, virðulegur forseti, að hv. landbn. þingsins fari vel yfir efni frv. og vissulega er von mín og flm. að við fáum að sjá það aftur á þessu þingi í þeim búningi sem hv. landbn. telur rétt að skila málinu í aftur til þingsins að yfirveguðu ráði.