Landgræðsla

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 19:09:17 (1389)

1997-11-18 19:09:17# 122. lþ. 27.9 fundur 83. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntur) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:09]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir upplýsingar um hvað er á döfinni í ráðuneyti hans um þessi efni sem tengjast því máli sem ég mælti fyrir. Fyrir utan reglur sem er beint efni frv. er ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun laga um gróðurvernd og landgræðslu og jarðvegsvernd því að allir þessir þættir eru nefndir í tillögutextanum sem liggur fyrir. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að þessi mál dragist úr hömlu og hefði viljað sjá fyrir þinginu, og þó fyrr hefði verið, beinar tillögur um nýja löggjöf á þessu sviði. En ekki er að fást um það sem liðið er, spurningin er um framtíðina og af þessu kjörtímabili lifir ekki nema rösklega árið ef litið er til möguleika þingsins til starfa, kosningar eru samkvæmt lögum vorið 1999. Auðvitað er alltaf hætt við því ef ekki tekst að koma fram löggjöf og lagabótum undir viðkomandi ríkisstjórn að mál tefjist enn frekar. Þetta er mjög tilfinnanlegt á svo stóru og viðkvæmu sviði sem um er að ræða.

Virðulegur forseti. Án þess að fara út í frekari efnisumræðu um þetta leyfi ég mér þó að nefna það, með sérstakri tilvísan til þess að nú gegnir sami ráðherrann starfi bæði landbrh. og umhvrh., að við þær aðstæður ætti að vera tækifæri til þess að taka þessi mál allverulega nýjum og ferskari tökum en líklegt er að náist fram ef þessir málaflokkar eru í ólíkum höndum. Þá er ég sérstaklega að hugsa til þess að það þyrfti að færa hina almennu vöktun þessara mála og yfirstjórn verndunarþáttarins að því er varðar gróðurríki landsins og jarðveg í landinu undir umhvrn. en að halda nýtingarþáttunum undir viðkomandi fagráðuneyti eða viðkomandi atvinnuvegaráðuneyti. Það er kjarninn í þeirri nýju sýn til mála sem ég hefði viljað sjá, virðulegur forseti, í þessum málaflokki, og þá að sjálfsögðu einnig það sem við köllum skógrækt í löggjöf, að einnig væri tekið á því út frá þessu sjónarhorni og með sérstöku tilliti til þess að skógvernd er mikilvægur þáttur í almennri gróðurvernd í landinu og skógrækt er nú þegar hluti af umsvifum bænda í búskap fyrir utan það sem ríkisstofnunin Skógrækt ríkisins gegnir. Hugur minn er vissulega ekki sá að ganga þannig til verka að verið sé að taka hluta af því sem telst landbúnaður og búskapur bænda frá viðkomandi atvinnuvegaráðuneyti. Það er alls ekki minn hugur, það á heima undir viðkomandi fagráðuneyti samkvæmt skipulagi, samkvæmt almennum reglum sem móta þarf í sambandi við gróðurvernd og jarðvegsvernd almennt í landinu. Þessu vildi ég leyfa mér að koma á framfæri, virðulegur forseti, þar sem hæstv. ráðherra beggja málaflokka er meðal okkar og bið um vinsamlega umhugsun um þennan stóra þátt.

Virðulegur forseti. Ég sé fyrir mér að undir umhvrn. verði til stofnun sem beri heitið Gróðurvernd ríkisins rétt eins og við höfum Náttúruvernd ríkisins og Hollustuvernd ríkisins. Gróðurvernd ríkisins væri sá aðili sem fyrir hönd umhvrn. fjalli um og fari með þá vinnu sem eðlilegt er að stofnun sinni á þessu sviði út frá mjög almennum forsendum --- auðlindaforsendum, eftirlitsforsendum, almennri setningu reglna en aðrir þættir sem varða bein not samkvæmt gerðu skipulagi heyri að sjálfsögðu undir viðkomandi ráðuneyti atvinnumála, landbúnaðarráðuneytið í þessu tilviki.