Förgun mómoldar og húsdýraáburðar

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:43:35 (1395)

1997-11-19 13:43:35# 122. lþ. 28.1 fundur 104. mál: #A förgun mómoldar og húsdýraáburðar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., GL
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:43]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna fyrirspurn hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Í hans kjördæmi er stærsti hluti framleiðslu svína og kjúklinga í landinu. Þessi bú eru yfirleitt reist þar sem ekki er land í kring. Þetta eru einungis býli sem eru á mjög litlu landsvæði og úrgangur frá þeim fer í sumum tilfellum í sjóinn, sem er algerlega óviðunandi. Þess vegna er það verðugt verkefni fyrir hæstv. umhvrh. að beita sér fyrir því að í aðbúnaðar- og umhverfisreglugerð fyrir slík bú sé kveðið á um að bannað sé að farga úrgangi með þessum hætti og gera það að skilyrði að öllum úrgangi frá þessum búum verði varið til landgræðslu.

Það er rétt að geta þess í þessu sambandi að sum bú hafa einmitt haft forgöngu um að nýta land til uppgræðslu og ber að fagna því og ég held að mjög skynsamlegt sé að aðrir fylgi í kjölfarið.