Förgun mómoldar og húsdýraáburðar

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:47:25 (1397)

1997-11-19 13:47:25# 122. lþ. 28.1 fundur 104. mál: #A förgun mómoldar og húsdýraáburðar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:47]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta mál og ágætar ábendingar frá þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls auk fyrirspyrjanda um það hvernig bregðast megi við ýmsum þáttum. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minnti okkur enn einu sinni á það verkefni sem hefur staðið nokkurn tíma, að reyna að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár á Reykjanesi en hefur reyndar þrátt fyrir góðan vilja ýmissa og töluverða vinnu ekki gengið. Ég hef a.m.k. lýst áhuga mínum og vilja til að stuðla að ásættanlegri lausn málsins og heiti á alla sem geta lagt því máli lið að þeir haldi áfram að vinna að því verkefni. Ég hef átt gott samstarf við fólk sem starfar undir yfirskriftinni Gróður fyrir fólk og vona að framhald verði á því samstarfi því að ég held að víða sé verk að vinna og mikið vinnuafl og kraftur býr í því fólki sem vill beita sér á þessum sviðum.

Hv. þm. Guðmundur Lárusson minnti okkur á að þó að við búum ekki við álíka vanda eins og sum nágrannalöndin okkar varðandi úrgang frá landbúnaði, ég nefni t.d. Holland, þá er þetta að verða áhyggjuefni hjá stærstu búunum, alifugla- og svínabúunum, og verður að taka á málunum þar. Kannski má gera það með reglugerð eins og hv. þm. minnti á. Ég hef það því miður ekki fyrir framan mig þannig að ég geti svarað því nákvæmlega hvernig það lítur út eða hvort bregðast mætti öðruvísi við en gert hefur verið. Ég ítreka að á vegum landbrn. og umhvrn. sameiginlega eru starfandi nefndir sem vinna að þeim verkefnum sem fjallað er um í þessari fyrirspurn.