Losun koldíoxíðs í andrúmsloft

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:52:51 (1399)

1997-11-19 13:52:51# 122. lþ. 28.2 fundur 232. mál: #A losun koldíoxíðs í andrúmsloft# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:52]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu að menn velti fyrir sér og ræði um loftslagsbreytingar þessa dagana vegna þess að eins og kom fram á hv. þingi fyrir tveim dögum standa fyrir dyrum mikilvæg fundahöld um þessi mál á alþjóðlegum vettvangi sem við Íslendingar þurfum auðvitað að taka þátt í og höfum reyndar gert í sambandi við undirbúninginn. Eitt af því sem hefur komið fram í þeirri umræðu er hversu okkar staða er sérstæð að því leytinu til að við höfum þegar tekist á við mörg af þeim vandamálum og verkefnum sem aðrar þjóðir eiga algerlega eftir að takast á við, þ.e. að nýta endurnýjanlega orkugjafa til að draga úr mengun andrúmsloftsins og losun gróðurhúsalofttegundanna svokölluðu. Þar sem viðmiðunarárið við þá samningagerð er yfirleitt talið vera 1990, og það ár sem samningurinn mun ganga út frá, og hversu þjóðum tekst að breyta til eftir þann tíma, þá verður fróðlegt að velta fyrir sér hvað við Íslendingar vorum búnir að gera fyrir þann tíma eins og hv. fyrirspyrjandi bað einmitt um.

Samkvæmt upplýsingum sem umhvrn. hefur fengið frá Orkustofnun, þá samsvaraði nýting jarðhita árið 1950 til notkunar á um það bil 72 þúsund tonnum af olíu og árið 1970 var þessi nýting jarðhita farin að svara til um 242 þúsund tonnum af olíu. Mismunur þessara talna gefur til kynna að hitaveita hafi komið í stað um það bil 170 þúsund tonna af olíu sem ella hefði verið nýtt til húshitunar og þá leitt til losunar á um 540 þúsund tonnum af koldíoxíði á ári.

Tölur um olíunotkun ná aftur til ársins 1972 og það ár var olíunotkun vegna húshitunar og sundlauga tæp 153 þúsund tonn og vegna raforkuvinnslu tæp 11 þúsund tonn. Útstreymi koldíoxíðs vegna þessarar eldsneytisbrennslu er áætlað að hafi verið um 520 þúsund tonn.

Árið 1982 var olíunotkun vegna húshitunar og sundlauga um 33.500 tonn og vegna raforku 2.300 tonn, útstreymi koldíoxíðs vegna þessarar brennslu hefði getað verið rúm 100 þúsund tonn. Árið 1992 var olíunotkun vegna húshitunar og sundlauga komin niður í 12.600 tonn og vegna raforkuvinnslu 1.300 tonn og útstreymi koldíoxíðs vegna þessarar brennslu hefði verið áætlað innan við 50 þúsund tonn. Á þessum tölum sést hversu gríðarleg breyting hefur orðið í þessum efnum hjá okkur fyrir árið 1990. Má því segja að frá árinu 1950 megi leiða líkur að því að með tilkomu hitaveitu eða húshitunar með rafmagni hafi dregið úr losun koldíoxíðs um u.þ.b. eina milljón tonna fram til ársins 1992 ef við miðum við það ár. Til samanburðar má síðan geta þess að það eru u.þ.b. 2,7 millj. tonna sem heildarlosunin er talin hafa verið hjá okkur á seinasta ári, þriðjungur frá samgöngum, þriðjungur frá fiskveiðiflotanum og þriðjungur frá stóriðju og annarri atvinnustarfsemi.

Aukið útstreymi koldíoxíðs er einnig ofurlítið vegna notkunar jarðhitavirkjananna og ekki rétt að vera að undanskilja það og má nefna það hér líka. Lætur nærri að sú losun sé talin vera um 80 þúsund tonn á ári.