Landbrot af völdum Þjórsár

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:04:54 (1403)

1997-11-19 14:04:54# 122. lþ. 28.3 fundur 240. mál: #A landbrot af völdum Þjórsár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 279 hefur hv. alþm. Guðni Ágústsson beint til mín fyrirspurn sem varðar landbrot af völdum Þjórsár. Leitað var upplýsinga af hálfu landbrn. hjá Landgræðslu ríkisins og Landsvirkjun en þessar stofnanir þekkja tvímælalaust best til þessara mála.

Fyrsti liður fyrirspurnarinnar var: Er til heildarúttekt á landbroti af völdum Þjórsár síðan virkjanir hófust?

Samkvæmt upplýsingum þessara stofnana hefur ekki verið gerð heildarúttekt á landbroti af völdum Þjórsár síðan virkjanir og miðlanir þar voru teknar í notkun. Hins vegar hefur Landsvirkjun gert nákvæmar mælingar á bökkum árinnar á árunum 1985 og 1996 til að geta metið breytingar á landbroti. Einnig hefur Landsvirkjun gert samanburð á landbroti samkvæmt loftmyndum sem teknar voru á árunum 1945, 1960 og 1978 og borið þær saman við mælingar. Þessi samanburður leiddi í ljós 1985 að ekki hafði orðið nein teljandi breyting á landbroti eftir að virkjanirnar tóku til starfa. Um næstu áramót munu liggja fyrir niðurstöður mælinga frá 1996 en þá ætti að koma í ljós hvaða áhrif hinir fjölmörgu varnargarðar við ána hafa haft til að stöðva landbrot.

Landsvirkjun hefur á undanförnum 13 árum fylgst reglulega með landbroti á viðkvæmum stöðum á bökkum árinnar. Einnig hefur fyrirtækið fylgst með og mælt breytingar á strandlínu suðurstrandarinnar nærri Þjórsárósum. Þær athuganir hafa leitt í ljós að á síðustu 20 árum hafa litlar breytingar orðið á strandlínunni í heild þó svo að áramunur sé verulegur á henni. Ljóst er að ítarleg úttekt á landbroti meðfram ánni og breytingum sem orðið hafa á undanförnum árum yrði mjög kostnaðarsöm.

Annar liður fyrirspurnarinnar var: Hefur Landsvirkjun kostað aðgerðir til varnar landbrotinu?

Landsvirkjun hefur ásamt Landgræðslu ríkisins kostað byggingu 30 varnargarða í Þjórsá sem reistir voru á árunum 1985--1993. Þessir garðar eru á Skeiðum, í Villingaholtshreppi, í Holta- og Landsveit. Heildarframlag fyrirtækisins til byggingar garðanna nemur á núverandi verðlagi um 7 millj. kr. á tímabilinu frá 1985--1995 auk minni háttar vinnuframlags með umsjón með gerð garðanna.

Þriðji liður spurningarinnar var: Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar á næstu árum til að koma í veg fyrir frekara landbrot á bökkum Þjórsár í byggð?

Því er til að svara samkvæmt upplýsingum frá stofnununum að Landgræðslan ber ábyrgð á fyrirhleðslum í ám lögum samkvæmt. Af hálfu stofnunarinnar eru ekki fyrirhugaðar neinar sérstakar aðgerðir á næsta ári aðrar en venjubundið viðhald þeirra garða sem fyrir eru. Landgræðslan telur hins vegar brýnt að verja land á nokkrum stöðum í Skeiða- og Villingaholtshreppi og í Holta- og Landsveit. Til þessa eru ekki neinar fjárveitingar. Landsvirkjun hefur heldur ekki gert áætlun um aðgerðir til að koma í veg fyrir frekara landbrot Þjórsár í byggð. Eins og hér hefur komið fram hefur fyrirtækið haft auga með þeim stöðum á bökkum árinnar þar sem rennsli veldur landbroti og gert þar viðeigandi ráðstafanir til að stöðva landbrot í samstarfi við Landgræðsluna.

Síðari liður þriðju fyrirspurnarinnar var: Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar á næstu árum til að fyrirbyggja að Þjórsá flæmist að vetri um byggð í Villingaholtshreppi?

Hér er um það að ræða að Þjórsá rennur milli hárra bakka frá Urriðafossi niður fyrir bæinn Egilsstaði. Á þessum kafla gerist það oft að vetri til að mjög mikil vatnsborðshækkun verður vegna ísmyndunar. Neðan við Egilsstaði breiðir áin úr sér bæði til austurs og til vesturs í átt að Villingaholti. Á liðnum vetri rann Þjórsá yfir veginn milli Egilsstaða og Mjósyndis eins og raunar hefur gerst nokkrum sinnum áður í manna minnum. Í kjölfar þess hafa aðstæður á svæðinu verið skoðaðar í því skyni að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að áin grafi í sundur vegina á þessum köflum og valdi skaða í nágrenninu.

Að mati Landsvirkjunar er heppilegasta varnaraðgerðin til að koma í veg fyrir slíka atburði sú að hækka verulega veginn milli Villingaholts og Egilsstaða þannig að hann komi í veg fyrir að vatn flæmist um lægðina á milli þessara bæja. Hið sama gildir um svæðið milli Villingaholts og Mjósyndis. Þar þarf að hækka veginn á stuttum kafla til að varna þar rennsli úr farvegi árinnar.

Loks má geta þess að til er áætlun hjá Landsvirkjun um gerð sérstaks leiðigarðs efst á flatlendinu neðan Egilsstaða til að beina rennsli árinnar frá framangreindum stöðum þar sem borið hefur á því að áin fari úr farvegi sínum. Mikil óvissa ríkir hins vegar um það hvort bygging slíks garðs nægði til að koma í veg fyrir slíka atburði. Að mati landgræðslustjóra er afar brýnt að fjármagna sem fyrst aðgerðir til að koma í veg fyrir að Þjórsá flæmist að vetri um byggð í Villingaholtshreppi. Til þess þarf hins vegar meiri fjármuni en árlega eru áætlaðir á fjárlögum til fyrirhleðslna í landinu öllu og yrði löggjafinn að taka á því máli sérstaklega.