Biðlauna- og lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:17:53 (1407)

1997-11-19 14:17:53# 122. lþ. 28.4 fundur 106. mál: #A biðlauna- og lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:17]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 106 hefur hv. þm. Guðrún Helgadóttir borið fram eftirfarandi spurningar til mín:

Í fyrsta lagi: Telur ráðherra það samrýmast 72. gr. stjórnarskrárinnar að mikilvægur þáttur í lögkjörum starfsmanna ríkisbankanna, svo sem réttur til biðlauna, sé skertur eins og gert var með lögum nr. 50/1997 eða réttur ríkisstarfsmanna til biðlauna eins og gert var með lögum nr. 70/1996?

Það er mat mitt að með lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélags um Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., hafi réttarstaða starfsmanna verið tryggð. Í 8. gr. laganna segir að allir starfsmenn ríkisviðskiptabankanna sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands ísl. bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga skuli eiga kost á sambærilegu starfi hjá viðkomandi hlutafélagabanka við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum. Jafnframt segir að starfsmaður ríkisviðskiptabankanna sem taki við starfi hjá viðkomandi hlutafélagabanka skuli njóta sömu kjara og réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum eða ráðningarsamningum. Réttur starfsmanna til launa hjá ríkisviðskiptabanka fellur niður er hann tekur við starfinu.

Hinn 27. júní sl. skrifuðu bankastjórar hvors banka öllum starfsmönnum bréf þar sem þeim var tilkynnt um hin lögmætu starfslok hjá viðkomandi ríkisviðskiptabanka og boðið starf hjá nýjum hlutafélagabanka. Í því sambandi var hverjum starfsmanni gefinn kostur á að skrifa undir yfirlýsingu þar sem viðkomandi staðfesti að hann hefði ákveðið að taka sambærilegu starfi hjá viðkomandi hlutafélagabanka og hann gegndi hjá ríkisviðskiptabankanum við yfirtökuna í samræmi við fyrrgreint bréf og lög nr. 50/1997.

Ekki hefur verið staðfest fyrir dómstólum að bankastarfsmenn eigi rétt til biðlauna sem almennir ríkisstarfsmenn. Til að taka af allan vafa um hvernig með slíkan rétt færi ef hann yrði viðurkenndur er hins vegar kveðið á um um biðlaunarétt sem kunni að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um hugsanlegan biðlaunarétt er því alfarið vísað til almennra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það frv. var til umfjöllunar hér í þinginu og hlaut nákvæma umfjöllun. Ég lít svo á að við afgreiðslu frv. hafi verið gætt að sjónarmiðum um vernd eignarréttar og ákvæði þess metin svo að ekki væri um skerðingu á slíkum réttindum að ræða.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra vafa leika á að áunninn lífeyrisréttur starfsmanna ríkisbankanna þar til hlutafélögin um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands voru stofnuð verði ríkistryggður?

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1997 segir að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands gagnvart Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands gagnvart Eftirlaunasjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands sem verða til vegna starfsmanna ríkisviðskiptabankanna áður en rekstur þeirra er tekinn yfir af viðkomandi hlutafélagi og til staðar eru samkvæmt reglugerðum eftirlaunasjóðanna eins og þær eru við yfirtökuna. Hins vegar er í ákvæðinu einnig gert ráð fyrir þeim möguleika að samningar takist um aðra tilhögun.

Á síðustu missirum hafa verið í undirbúningi breytingar á reglugerðum eftirlaunasjóða bankanna. Hugmyndirnar hafa í stórum dráttum verið þær að gefa starfsmönnum í framtíðinni kost á að ávinna sér rétt í blönduðu kerfi stigasjóðs og séreignarsjóðs. Jafnframt hafa hugmyndirnar falið í sér að bankarnir greiddu sjóðnum áfallnar skuldbindingar samkvæmt mati tryggingafræðinga. Þar með væru bankarnir búnir að gera upp við eftirlaunasjóðina og ábyrgð þeirra á þessum skuldbindingum því ekki lengur fyrir hendi. Í því fælist einnig að ábyrgð ríkissjóðs vegna skuldbindinganna væri þar með fallin niður.

Sjóðsfélagar Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka hafa þegar samþykkt breytingar á reglugerð sjóðsins í samræmi við þær hugmyndir sem hér var lýst áðan. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef eru breytingar á vegum Eftirlaunasjóðs Búnaðarbanka enn í vinnslu, en eru í sama farvegi og þær breytingar sem gerðar voru á reglugerðinni um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka.

Ég vil taka fram að vinna við breytingar á reglugerðum eftirlaunasjóðanna hefur verið að frumkvæði starfsmannanna sjálfra og er í þeim skilningi ótengd stofnun hlutafélaga um bankana. Það hefur hins vegar verið mat mitt að umræddar breytingar séu af hinu góða fyrir alla, jafnt sjóðfélaga, bankana og ríkissjóð.