Umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:28:57 (1410)

1997-11-19 14:28:57# 122. lþ. 28.5 fundur 181. mál: #A umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég er hér með umferðaröryggisáætlun 1997--2001 sem dreift var í þinginu í vor. Þetta er áhugavert plagg og hið vandaðasta. Við lestur vöknuðu ýmsar spurningar um framgang þessarar áætlunar sem mig langaði til þess að beina til hæstv. dóms- og kirkjumrh., en þær eru svohljóðandi:

Hefur ráðherra skipað starfshóp um verkaskiptingu og samstarf ráðuneyta til þess að tryggja betur skilvirka framkvæmd umferðaröryggismála?

Hefur skráning slysa verið samræmd milli Umferðarráðs, lögreglu og sjúkrastofnana?

Hafa skýrslur opinberra aðila sem vinna að umferðaröryggismálum skilað sér til dómsmálaráðuneytisins?

Er fyrirhugað að lögleiða notkun hjólreiðahjálma fyrir alla án tillits til aldurs?

Hvað líður heildarendurskoðun á innheimtukerfi sekta fyrir umferðarlagabrot?

Hvenær má búast við því að ,,Umferðaröryggisáætlun 1997--2001`` verði rædd á Alþingi?

Herra forseti. Umferðarmál varða alla og það skiptir miklu að umferðin í þéttbýli og í dreifbýli sé greið og örugg. Eins og við hins vegar vitum er hún það ekki alltaf. Slys, þjáningar og sorg er hlutskipti margra í þjóðfélaginu vegna þess að umferðin gengur ekki sem skyldi. Nánast daglega bætast einhverjir í þann hóp sem á um sárt að binda vegna slysfara í umferðinni. Fyrir utan dauðsföllin sem auðvitað eru þyngri en tárum taki bera margir þess sár um ævilöng ár sem var aðeins augnablik að gerast í óhappi í bíl eða annarri umferð.

Undanfarinn áratug hafa á bilinu 10--24 Íslendingar látist í umferðinni á ári fyrir utan allt líkamstjón þeirra sem lifa skertir eftir slys. Þetta er auðvitað aðalatriðið, en hitt er líka að slysin kosta samfélagið 10--13 milljarða á ári.

Herra forseti. Umferðarslysin eru ekki náttúrulögmál og þeim er hægt að afstýra. Það sýnir reynsla okkar og annarra þjóða. Gott forvarnastarf er afar mikilvægt og margt er vel gert þótt margt sé ógert. Mig langar til þess að vekja athygli á umferðarátaki sem stendur yfir þessa dagana á Sauðárkróki. Þar stendur umferðaröryggisnefnd Sauðárkróks að átakinu í samvinnu við lögreglu, tryggingafélögin og Umferðarráð og auðvitað í samvinnu við vegfarendur og bæjarbúa alla. Þarna hygg ég vera á ferðinni gott dæmi um viðleitni til að ná árangri. Kjörorðið er: Betri umferð, betri bær. Ég vænti þess að fleiri taki þetta svo upp, en umferðaröryggisnefndir hafa verið stofnaðar um allt land og þeim er ætlað að gangast fyrir auknu samstarfi um bætta umferðarmenningu.