Lokun vínveitingastaða

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:40:34 (1413)

1997-11-19 14:40:34# 122. lþ. 28.7 fundur 234. mál: #A lokun vínveitingastaða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:40]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 267, 234. mál þingsins, hef ég leyft mér að bera fram til hæstv. dómsmrh. fyrirspurn um skilyrði til lokunar vínveitingastaða. Fyrirspurnin er á þessa leið:

Hve oft hefur lögreglan fellt niður vínveitingaleyfi, sbr. 4. mgr. 12. gr. áfengislaga, nr. 82/1969?

Hvenær er gert ráð fyrir að endurskoðun áfengislaga ljúki, m.a. með tilliti til útgáfu vínveitingaleyfa á veitingahúsum og til þess að lögreglan geti sett strangari skilyrði fyrir opnun veitingastaða sem hafa brotið settar reglur?

Í 12. gr. áfengislaganna er þessi málsgrein, með leyfi forseta:

,,Leyfi til áfengisveitinga skal bundið því skilyrði að veitingastaður hafi á boðstólum mat og fjölbreytta óáfenga drykki við hóflegu verði. Leyfi má binda frekari skilyrðum sem lögreglustjóri eða sveitarstjórn telja nauðsynleg. Dómsmálaráðherra getur sett almennar reglur um skilyrði fyrir leyfisveitingu. Ef veitingamaður brýtur gegn settum skilyrðum eða uppfyllir þau ekki lengur skal lögreglustjóri þegar fella leyfi úr gildi.``

Það er þessi grein sem ég spyr um og flyt reyndar líka aðra fyrirspurn sem kemur á dagskrá síðar á fundinum. Tilefnin eru ærin.

Það má segja að marga sólarhringa á ári sé ástandið þannig í miðborg Reykjavíkur sem vill svo til að er líka höfuðstaður landsins, að mannlíf er í verulegri hættu vegna þess að á þessu svæði eru allt of margir veitingastaðir og allt of lítið er gert til að fylgja starfsemi þeirra eftir þannig að eðlilegum settum reglum sé fylgt. Ég er þar ekki, herra forseti, að tala um að veitingastarfsemi eða starfsemi af því tagi sé bundin í strangari viðjar og fjötra en önnur starfsemi í landinu. Það sem ég er að biðja og tala um er að þessi starfsemi verði í eins góðu sambýli við annað mannlíf í höfuðstað Íslands og mögulegt er. Svo er ekki þannig núna.

Það er alveg augljóst mál að fjöldi fólks er að flýja miðborgina vegna þess ástands sem hér er, af því að fólk getur ekki sofið á nóttunni langtímum saman út af hávaða, af því að þeir staðir sem hér er um að ræða hafa það fyrir sið sumir að opna út upp úr miðnættinu þannig að hávaðinn berst hömlulítið um borgina á þeim tíma sem síst skyldi.

Veruleikinn er líka sá að talið er að ýmsar opinberar stofnanir á svæðinu séu jafnvel í hættu þegar verst lætur og fólk hefur það við orð í lesendabréfum sem hafa birst í blöðum landsins að þegar verst lætur á sunnudagsmorgnum þegar fólk vill fara í gönguferðir með börnin sín hér út úr íbúðum á miðbæjarsvæðinu, þá þurfi fólk helst að vera í vaðstígvélum vegna þess að viðskilnaðurinn eftir næturnar sé slíkur að ekki sé búandi við þessi skilyrði. Af þessum ástæðum, herra forseti, og fleirum hef ég leyft mér að bera fram þessa fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. Ég beini aðallega athyglinni að endurskoðun áfengislaganna og er að fara fram á að settar verði skýrar reglur sem lögreglan geti starfað eftir með eðlilegum hætti í sátt við borgarana.