Hvíldar- og þjónustustaðir fyrir ökumenn flutningabifreiða

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:01:00 (1422)

1997-11-19 15:01:00# 122. lþ. 28.8 fundur 182. mál: #A hvíldar- og þjónustustaðir fyrir ökumenn flutningabifreiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:01]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég er fullkomlega sammála efnislega því sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda um mikilvægi þess að komið verði fyrir áningar- og keðjunarstöðum þar sem við á. Vegagerðin svarar fyrirspurninni svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Vegagerðin hefur komið upp aðstöðu fyrir langferðabifreiðarstjóra á nokkrum stöðum á landinu þar sem ökumenn geta hvílst eða sett keðjur á bifreiðar sínar á vetrum. Þessir staðir eru ýmist fullbúnir eða fyrirhugaðir, þó ekki síðar en á næsta ári. Hér á eftir verða taldir upp þessir áningar- og keðjunarstaðir sem eru samtals 24 að tölu.

Fullbúnir áningarstaðir, svefnstaðir og keðjunarstaðir: Freysnes í Öræfasveit, Lómagnúpur við Skeiðarársand, Kirkjubæjarklaustur, Langasker á Mýrdalssandi, við vegamót Skeiðavegar og hringvegar, Fiskilækur í Melasveit, Vegamót á Snæfellsnesi, við vegamót Stykkishólmsvegar og Snæfellsnesvegar á Snæfellsnesi, Ögurnes í Ísafjarðardjúpi, Staðarskáli í Hrútafirði, Víðihlíð í Víðidal, Svartárhorn í Langadal, Vallhólmi í Skagafirði, austan Fremrakots ...`` (Gripið fram í: Kota.) Kota, já. Það segir Davíð Stefánsson:

  • Það er annað að kveðja í Kotum
  • en komast í Bakkasel.
  • ,,austan Fremrakots í Norðurárdal í Skagafirði, Þernunes í Reyðarfirði, sunnan Breiðdalsvíkur.

    Fullbúnir keðjunarstaðir, ekki svefnstaðir: Krókalækir í Borgarfirði við Holtavörðuheiði, norðan Bakkasels í Öxnadal.

    Fyrirhugaðir áningar- og keðjunarstaðir teknir í notkun í síðasta lagi 1998: Skammt austan Jökulsár á Sólheimasandi, Arnarbæli í Norðurárdal, Borgarfirði, Biskupsháls á Mývatnsöræfum, austan Almannaskarðs í Austur-Skaftafellssýslu.

    Fyrirhugaður keðjunarstaður, ekki svefnstaður: Hraunhöfn í Staðarsveit á Snæfellsnesi.``