Hvíldar- og þjónustustaðir fyrir ökumenn flutningabifreiða

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:03:30 (1423)

1997-11-19 15:03:30# 122. lþ. 28.8 fundur 182. mál: #A hvíldar- og þjónustustaðir fyrir ökumenn flutningabifreiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Þau voru skýr og ljós. Verið er að vinna að því að koma upp fleiri keðjunar- og áningarstöðum. Þeir eru 24 núna. Þetta kom fram og er gott til þess að hugsa að öryggið vex. Ég veit að við deilum þeirri skoðun sameiginlega, ég og hæstv. samgrh., að eitt brýnasta öryggismálið í umferðinni á þjóðvegum landsins sé að breikka einbreiðu brýrnar. Þar er slysahætta mikil. En þegar flutningabílar þurfa að stansa á akrein vegar, þá er hann þar með orðinn einbreiður.

Sá tiltölulega litli tilkostnaður sem gerð áningar- og svefnstaða hefur í för með sér skilar sér fyllilega í meira umferðaröryggi og hagræði fyrir þá sem aka um vegi landsins.

Og af því að ég átti einu sinni heima í Svartárdal rétt við rætur Botnastaðabrekkunnar þar sem ég sá flutningabílana ævinlega stansa áður en þeir fóru upp á fjallið, því þá stoppuðu þeir til þess að keðja, þá dettur mér í hug í framhaldi af því að hæstv. ráðherra vitnaði í Davíð Stefánsson, að hann orti líka:

  • Við erum á leið fram Langadal
  • en leggjum senn á fjallið.