Reiðvegir fyrir hestafólk

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:13:28 (1426)

1997-11-19 15:13:28# 122. lþ. 28.9 fundur 191. mál: #A reiðvegir fyrir hestafólk# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:13]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hæstv. samgrh. að ég hygg að þessi mál séu komin á þann stað að það þurfi að taka þau upp í víðu samhengi. Hér er um mjög stórt mál að ræða, hestaferðir. Það er atvinna, það er íþrótt og það er afþreying stærri og stærri hluta þjóðarinnar að ferðast um landið og þá verða öryggismálin og umferðarmálin hvað mann og hest varðar að vera í lagi.

Ég vil segja við þessa umræðu að ég verð þess var með nýrri kynslóð sem er að kaupa sér jarðir að hún virðir kannski ekki þær reglur sem gilt hafa um ferðir um landið. Þess vegna hygg ég að að lýsa þurfi kvöð inn á bújarðir til að vernda gamlar rekstrar- og reiðleiðir. Þar liggja þúsund ára leiðir reiðmannsins um landið. Þaðan heyrist hófadynur kynslóðanna sem fóru hér um og ég tel að það eigi að vera kvöð á bújörðunum að reiðleiðum verður að halda opnum.

Ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, og tel mjög mikilvægt að taka þessi mál upp hér á Alþingi í heild sinni.