Reiðvegir fyrir hestafólk

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:15:00 (1427)

1997-11-19 15:15:00# 122. lþ. 28.9 fundur 191. mál: #A reiðvegir fyrir hestafólk# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:15]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Mér finnst gæta ákveðins misskilnings í þessari umræðu og hann er sá að reiðmenn séu eitthvað réttlægri en önnur umferð um þjóðvegi. Þess vegna tel ég að þegar Vegagerðin eyðileggur gamla reiðleið með því að leggja hraðbraut yfir hana eða með því að malbika leiðina þannig að hún verður óreiðfær, þá beri henni að leggja aðra leið sem er fær ríðandi ferðamönnum, annaðhvort samhliða eða í þeirri fjarlægð að hún sé sambærileg hinni eldri reiðleið.

Þeir fjármunir sem hafa verið lagðir í sérstaka reiðvegáætlun eru það litlir að þeir munu engan veginn duga til þess að leysa þann vanda sem víða er uppi í þessum efnum. Þess vegna hefur það verið skoðun mín að engin leið sé að leysa þetta öðruvísi en að taka til þess fjármuni af hinu almenna vegafé og það hafa þingmannahópar hinna ýmsu kjördæma reyndar gert.