Reiðvegir fyrir hestafólk

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:18:46 (1429)

1997-11-19 15:18:46# 122. lþ. 28.9 fundur 191. mál: #A reiðvegir fyrir hestafólk# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:18]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér þykir ánægjulegt að heyra að þingmenn hafi mikinn áhuga á því að fé sé lagt til reiðvega til þess að hestamenn komist frekar leiðar sinnar á reiðskjótum sínum.

Ég er nú raunar þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að leggja verulegt fé fram til þess að greiða fyrir því að umferðin sé örugg og hestamenn komist leiðar sinnar. Það er á valdi sveitarfélaganna að ákveða hvar hesthúsin eru. Þau velja þeim stað og ákveða leiðir þaðan. Sveitarfélögin ráða einnig afréttarlöndum og öðru slíku Á hinn bóginn er rétt að á undangengnum áratug hefur þess ekki verið gætt sem skyldi, um leið og hraðbrautir hafa verið lagðar, að halda hinum gömlu vegum opnum og greiðfærum fyrir hestamenn og er nauðsynlegt að taka upp viðræður um þau efni. Um leið vil ég leggja áherslu á að það er mikið öryggismál fyrir alla vegfarendur að þessi mál séu í fullkomnu lagi.

Ég man nú ekki eftir því að Vegagerðin standi mikið í því að breyta þúsund ára gömlum reiðvegum í hraðbrautir, en vel má vera að það finnist einhvers staðar ef vel er að gáð.