Starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:20:44 (1430)

1997-11-19 15:20:44# 122. lþ. 28.10 fundur 205. mál: #A starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Síðla í júní sl. boðuðu forsvarsmenn Vegagerðarinnar þingmenn Suðurlands til skyndifundar með litlum fyrirvara, svo stuttum að einungis þrír af sex þingmönnum gátu mætt. Erindið var fyrirvaralaus tilkynning um að innan árs yrði starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu lögð niður. Engin skrifleg rök eða útreikningar hafa verið kynntir vegna þessarar ákvörðunar.

Í svari við skriflegri fyrirspurn minni til hæstv. samgrh. á þskj. 213 kemur fram að rekstrarkostnaður stöðvarinnar nam einungis 7,4 millj. árið 1996. Í sama svari kemur einnig fram að samanlagðir vegir í Rangárvallasýslu eru um 1.100 km. Til samanburðar er hringvegurinn tæplega 1.400 km. Einungis 182 km eru lagðir bundnu slitlagi en um 900 km eru malarvegir og þurfa því mikils viðhalds við.

Í fáum sýslum eru lengri og fjölfarnari landvegir eða fjallvegir eða tæplega 400 km. Nefna má Fjallabaksleið nyrðri, Fjallabaksleið syðri, leiðir að virkjunum, Þórsmerkurleið og margar fleiri leiðir. Öll umferð og flutningar hafa farið eftir vegakerfinu því að Rangárvallasýsla er hafnlaus sýsla. Þrátt fyrir mikla umferð um flugvelli á fastalandinu á Suðurlandi eru flugvellirnir ófullkomnir.

Í starfsstöðinni í Rangárvallasýslu eru sex ársverk og það munar um minna í 3.200 manna sýslu. Fjölmargir hafa mótmælt þessum gerræðislegu og órökstuddu ákvörðunum og lýst áhyggjum sínum, ekki síst út frá öryggissjónarmiðum, og ég vonast til þess að hæstv. samgrh. hafi fengið þau mótmæli sem eru m.a. frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, héraðsnefnd Rangæinga, Verkalýðsfélagi Rangæinga og hreppsnefndum og atvinnumálanefndum Hvolhrepps og Rangárvallahrepps. Ég spyr því hæstv. samgrh.:

Er ráðherra samþykkur fyrirhugaðri niðurlagningu starfsstöðvar Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu?

Hvaða rök liggja að baki ákvörðuninni? Eru þau fjárhags-, skipulags- eða stjórnunarlegs eðlis?

Hver er áætlaður sparnaður Vegagerðarinnar vegna lokunar starfsstöðvarinnar? Hvernig hyggst stofnunin ná honum og hvernig verður því fé varið? Er von til þess að því fé verði hugsanlega varið til vegagerðar á Suðurlandi? Hvert er áætlað söluverð áhaldahússins á Hvolsvelli?

Hver er heildarstefna Vegagerðarinnar varðandi lokun starfsstöðva annars staðar á landinu? Og þá spyr ég um framtíðarsýn, ekki hvað hefur verið gert.