Starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:34:18 (1435)

1997-11-19 15:34:18# 122. lþ. 28.10 fundur 205. mál: #A starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:34]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og fram kom í svari Vegagerðarinnar hér áðan --- ég hafði ekki tíma til þess að bæta þar við áðan og mun gera það nú --- er lögð áhersla á að halda uppi sömu þjónustu og áður. Þess vegna er það að ekki er við því að búast að þessi störf hverfi öll sem talað er um. En á hin bóginn má velta því fyrir sér ef horft er til Suðurlands sem heildar hvort hv. þingmenn Sunnlendinga telji að nauðsynlegt sé að þjónustustöðvar Vegagerðarinnar séu á öllum þessum þrem stöðum, Selfossi, Hvolsvelli og Vík í Mýrdal eftir að samgöngur eru orðnar jafngóðar og raun ber vitni. Það má vera að það sé álitamál hvort leggja hefði átt niður t.d. þjónustustöðina í Vík í Mýrdal eða hvort vilji hv. þingmanna hefði staðið til þess að færa vegagerðina á Selfossi til Hvolsvallar. En hitt held ég að menn viti og þingmenn geri sér grein fyrir, að hverju sinni sem fjallað er um vegáætlun hér í þinginu, þá velta menn því fyrir sér hvort ekki megi lækka rekstrarkostnað Vegagerðarinnar og hefur svo löngum verið raunar að þingmenn hafa verið viljugri að leggja niður störf eða draga úr rekstrarkostnaði við vegagerð og vegaþjónustu í öðrum kjördæmum en sínu eigin.

Eins og ég las upp áðan er verið að tala um að draga úr starfsemi Vegagerðarinnar víðar en á Suðurlandi og eins og ég tók fram áðan er ég á hinum afskekktustu stöðum, á Vopnafirði, á Þórshöfn og á Hólmavík að tala um það og hef falið þeim það, vegamálastjóra og flugmálastjóra, að athuga hvort ekki sé þar hægt að spara líka (Gripið fram í.) með því að þessar tvær stofnanir vinni saman. Ég tel þess vegna að það sé höfuðskylda samgrh. á hverjum tíma að reyna að sjá til þess að viðunandi og góðri þjónustu sé haldið uppi en um leið sé reynt að draga úr rekstrarkostnaði jafnvel þó það sé nálægt manni sjálfum.