Þungaskattur

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:40:20 (1437)

1997-11-19 15:40:20# 122. lþ. 28.11 fundur 272. mál: #A þungaskattur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:40]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom greinilega hjá hv. fyrirspyrjanda, þá gaf samkeppnisráð út álit dagsett 2. september vegna erindis félaga leigu-, sendi- og vörubifreiðastjóra varðandi ákvæði í lögum um fjáröflun til vegagerðarinnar. Eins og hv. fyrirspyrjandi rakti í sínum málflutningi þá kemst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu að í tveimur atriðum sé um að ræða ákvæði í lögunum sem hafi hamlandi áhrif á samkeppni. Þar er annars vegar um að ræða ákvæði í a-lið 4. gr. sem kveður á um 30% hærra fast gjald þungaskatts á atvinnubifreiðar sem hafa gjaldmæli, þ.e. leigu- og sendibifreiðar, en aðrar. Hins vegar er það ákvæði í b-lið 4. gr. laganna sem kveður á um lækkun þungaskatts vöruflutningabifreiða eftir því hve bifreiðunum er mikið ekið og talið að það dragi úr samkeppnishæfni sambærilegra atvinnubifreiða til að þjóna sama markaði, svo og möguleikum nýrra keppinauta á markaðnum.

Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi sagði að samkeppnisráð beinir því til fjmrh. að hann hlutist til um að leiðrétta umrædda stöðu mála með breytingum á núgildandi lögum eða með því að flýta gildistöku laga nr. 34/1995, um olíugjald. Það eru tvö atriði sem bent er á.

Nú er það svo, virðulegur forseti, að lög um olíugjald taka gildi 1. janúar 1999. Alþingi hefur tvívegis, jafnvel þrívegis á undanförnum árum fjallað um það mál og nú eru að störfum tvær nefndir sem ætlað er að undirbúa upptöku olíugjalds þar sem gjaldfrjáls olía skal vera lituð. Ábending samkeppnisráðs um að flýta gildistöku olíugjalds er þar m.a. til umfjöllunar. Það er ætlun mín að starfi þessara nefnda geti lokið núna skömmu eftir næstu mánaðamót, alla vega fyrir áramót, enda er starf þeirra vel á veg komið og það er stefnt að því að frv. verði tilbúið fyrir áramót.

Hvað varðar endurskoðun laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, þá tel ég að ekki sé hægt að taka afstöðu til þess hvort þeim verði breytt fyrr en olíugjaldsnefndin hefur skilað tillögum sínum. Við vitum að það er nokkur andstaða við þessar breytingar frá vissum hópi þeirra sem hagsmuna hafa að gæta. Við höfum átt viðræður við hagsmunaaðila og erum að reyna að ná lendingu í þessum málum sem sem flestir gætu við unað. Í því sambandi tel ég að horfa þurfi til annarra landa þar sem annars vegar er um að ræða olíugjald í eldsneytinu sjálfu og hins vegar einhverjar álögur á þyngstu bílana sem slíta vegunum miklu meira en sem nemur muninum á eyðslu þeirra á eldsneyti. Þannig er þessu víðast komið fyrir.

Ég vil að allra síðustu, virðulegi forseti, benda á, ráðuneytinu eða löggjafanum til málsbótar, það er kannski frekar löggjafanum því að þetta var sett í lög 1997, að ákvæðin sem samkeppnisráð telur að skerði samkeppnisstöðu bifreiðastjóra hafa verið lengi til staðar, í tíu ár ef ekki lengur og það var ekki talin ástæða til að endurskoða þau þegar miklar breytingar voru gerðar á lögunum árið 1996 og málin þá rædd við fjöldamarga aðila.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti: Strax í næsta mánuði liggur fyrir frv. Á grundvelli þess frv. geta menn áttað sig á því hvort hægt er að flýta breytingunni yfir í olíugjald. Ég hef vissar efasemdir um að það sé hægt og þá fyrst verður hægt að taka afstöðu til þess hvort breyta eigi lögunum frá 1987, en eins og sakir standa er það a.m.k. ljóst að stefna löggjafans og framkvæmdarvaldsins er að viðunandi breyting eigi sér stað í síðasta lagi um áramótin 1988/1989.