1997-11-19 16:07:05# 122. lþ. 28.92 fundur 96#B rekstrargrundvöllur landvinnslu í samkeppni við sjóvinnslu um borð í frystiskipum# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[16:07]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Það er nauðsyn að varpa ljósi á þær aðferðir að einhverju leyti sem notaðar eru við fiskveiðar á Íslandi og fiskiðnað.

Ég vil aðeins benda á að af þeim afla sem frystiskipin okkar draga úr sjó, ef miðað er við þorsk, þá eru um það bil 60% hent í sjó aftur þannig að frystiskip sem landar 300 tonnum af þorskflökum hefur hent á sjöunda hundrað tonna af einhvers konar hráefni aftur í sjóinn, þar af a.m.k. 200--300 tonnum af nýtanlegu hráefni. Þá er komið að því máli að það er alvarlegur skortur á þorskhausum til vinnslu í landi og sá skortur er svo mikill að verið er að kanna möguleika á flutningi á þorskhausum frá Bretlandi til Íslands til vinnslu. Mér finnst þetta ekki geta gengið. T.d. var verið að flytja smáufsa frá Danmörku til vinnslu á Íslandi og síðan aftur út til Danmerkur til sölu. Það getur vel verið að við séum í góðum málum, en ég tel að það þurfi að skoða þetta vel.

Það eru til markaðir fyrir þetta hráefni sem ég er að tala um. Það vantar bara hráefnið. Ég er ekkert í þessari ræðu minni að leggjast sérstaklega gegn frystitogurum en ég fagna þessari umræðu um málið, um sjóvinnslu versus landvinnslu.

Ég vil spyrja: Hefur hæstv. ráðherra upplýsingar um mengun frá frystitogurum á hvert veitt tonn á móti mengun frá smábátum á hvert veitt tonn? Ég tel að það sé athyglisvert í ljósi sögunnar.