1997-11-19 16:12:06# 122. lþ. 28.92 fundur 96#B rekstrargrundvöllur landvinnslu í samkeppni við sjóvinnslu um borð í frystiskipum# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[16:12]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Um leið og ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. sjútvrh. að svara þeim spurningum sem bornar eru fram, þá verð ég að taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni um að mér finnst að umræða af þessu tagi, svo mikivæg sem hún er, sé oft ákaflega fátæk að úrræðum. Ég upplifi þessa umræðu sem er ekki ný í þessari virðulegu stofnun þannig að menn geri sér grein fyrir þessum mikla vanda, menn átti sig á því að hér sé um það að ræða að heilu byggðirnar séu að leggjast í auðn vegna þess að atvinnugrundvöllurinn er að hverfa. Frystihúsin eru mörg á bullandi hausnum og eiga við rekstrarörðugleika að etja, eru ekki samkeppnisfær við sjóvinnsluna. En staðan er þannig að menn eru ekki tilbúnir til þess að segja nákvæmlega hvað á að gera í staðinn. Ég tel að sú mikilvæga umræða sem hér er hafin sé hluti af hinni stóru umræðu um sjávarútvegsmálin. Ég tel að það sé mikilvægt að svara þessu máli með því að styrkja stöðu strandveiðanna eins og við alþýðubandalagsmenn höfum reyndar flutt sérstakt frv. um undir forustu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að við höfum lagt fram ein fjögur frv. um breytingar á fiskveiðistjórnuninni og sjávarútvegslöggjöfinni sem öll mundu hafa það í för með sér að tekið væri skýrt og ákveðið á ýmsum þeim vandamálum sem hér er hreyft þó þau væru ekki nærri öll leyst í þeim frv. frekar en annars staðar. Og ég vil skýra frá því að við munum óska eftir því að um þau mál fari fram sérstök umræða strax að lokinni nefndavikunni þannig að hér verði tekin dálítil lota um sjávarútvegsmálin og reynt að leiða þá umræðu til efnislegra lykta því að umræða af þessu tagi má ekki bara vera orð. Menn þurfa að tala um hluti sem er hægt að líta á sem efnislega niðurstöðu og lausn og svör við þeim hrikalega vanda sem landvinnslan á við að stríða.