1997-11-19 16:15:38# 122. lþ. 28.92 fundur 96#B rekstrargrundvöllur landvinnslu í samkeppni við sjóvinnslu um borð í frystiskipum# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[16:15]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum þessa umræðu og hæstv. ráðherra svör hans. Ég vil segja við þessa umræðu að frystiskipin mega græða og þau eiga að græða. Það þarf ekkert að leggjast í vörn yfir því þó að ég hér í þessari málsókn minni hafi tekið það fyrir að bera saman samkeppnisstöðu þessara greina, landvinnslunnar og sjóvinnslunnar, það er eðlilegt, og benda á þann mismun sem ríki á milli þeirra. Hæstv. sjútvrh. þarf ekki að leggjast í þessa vörn. Hann þarf að vera eins og blóm á velli sem lætur sólskinið baða sig, sér ný úrræði og hlustar á fólkið sem er að benda honum á leiðir. (Gripið fram í: Heyr.)

Í þessari umræðu var bent á margar leiðir. Ég gerði það í minni framsöguræðu. Ég vil hafa það á hreinu. Frystiskipin mega græða fyrir mér en þau mega ekki stela allri landvinnslunni og taka alla vinnsluna frá fólkinu í landinu. Við verðum að styrkja landvinnsluna og það eru mörg úrræði til þess, hæstv. sjútvrh.

Hér sagði hv. þm. Sturla Böðvarsson að að stokka þyrfti upp spilin og er hann flokksbróðir hæstv. sjútvrh. Ég tek undir það. En hann sagði það rangt að ekkert hefði komið fram við þessa umræðu. Við þessa umræðu komu fram ýmsar ábendingar. En við leysum ekki þetta stóra mál í þessari umræðu. Við verðum að gera kröfur til þess að hæstv. sjútvrh. leggist ekki alltaf í eilífa vörn. Hann verður að sækja líka með fólkinu sem býr í landi og í sjávarbyggðunum. Hann verður að taka á með því. Það eru margar leiðir. Ég nefndi nokkrar leiðir og spurði hann álits. Hann svaraði því ekki því hann var allan tímann að verja frystiskipin sem ég var ekkert að ráðast á. Þau mega græða fyrir mér eins og ég er búinn að segja hér margoft og eiga að græða því að þar liggja menn eins og langhundar lengi í hafi. En ég geri kröfu til þess að á þessari stundu þegar landvinnslan er í vörn, á í vök að verjast og er á undanhaldi, þá geri hæstv. sjútvrh. það að setjast yfir þessi mál og fá marga aðila til sín, hlusta og móta nýja framtíðarstefnu sem er mikilvæg vegna þeirrar þróunar sem nú á sér stað.