1997-11-20 10:38:12# 122. lþ. 30.92 fundur 98#B framkvæmd ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaga# (umræður utan dagskrár), Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:38]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég taka fram að tímasetning þessarar utandagskrárumræðu var ákveðin með nokkrum fyrirvara og því er hún ótengd þeim tíðindum sem hv. þingkona Kristín Ástgeirsdóttir tjáði þingflokknum í gær og þingheimi nú.

Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár um brot ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaganna. Í kjölfar tveggja fyrirspurna minna hér á Alþingi og skriflegra svara við þeim er nauðsynlegt að vekja athygli á því hvernig til tekst við framkvæmd jafnréttislaganna. Fyrst spurði ég um hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytanna í tíð núverand ríkisstjórnar, samanber 12. gr. jafnréttislaganna, en þar segir m.a.:

,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.``

Í svarinu kemur fram að að meðaltali eru 23% konur í nefndum og ráðum sem núverandi ráðherrar hafa skipað og þar kemur félmrn. áberandi best út með 40% konur og heilbrrn. næstbest með 35%. Versta útkoman var í nefndum skipuðum af ráðherrum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytanna þar sem konur voru 2--5% nefndarmanna.

Í framhaldi af þessu svari og því að menntmrh. skipaði aðeins tvær konur í 11 manna Rannsóknarráð skrifaði ég opið bréf til menntmrh. til að varpa ljósi á hvers vegna það gengur svo seint að koma áðurnefndri lagagrein í framkvæmd. Í svargrein sinni í Morgunblaðinu 23. ágúst viðurkennir ráðherrann að hafa ekki farið að lögum þegar hann bað um tilnefningar í Rannsóknarráð. Orðrétt segir ráðherrann:

,,Hins vegar var ekki vitnað í ákvæði 12. greinar jafnréttislaganna í bréfum, þrátt fyrir lagafyrirmæli um það.``

Í framhaldi af svargrein minni frá 11. september lagði ég fram fyrirspurn á þskj. 34 til að kanna hvort hér er um einstakt lögbrot að ræða eða hvort fleiri ráðherrar hefðu gerst brotlegir við jafnréttislögin. Orðrétt spurði ég: Hve oft hefur verið minnt á 12. gr. jafnréttislaganna frá því að hún var lögtekin árið 1991 í bréfum einstakra ráðherra þar sem óskað er tilnefningar í stjórnir, ráð og nefndir?

Í svarinu er staðfest orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í svörum ráðuneyta kemur fram að yfirleitt hefur ekki verið minnt á 12. gr. jafnréttislaga í þeim bréfum ráðuneyta þar sem óskað er eftir tilnefningum í ráð, stjórnir og nefndir. Á þessu eru hins vegar undantekningar. Félagsmálaráðuneyti hefur á því tímabili sem um er spurt 173 sinnum minnt á umrædda grein og umhverfisráðuneyti hefur 12 sinnum á sama tímabili minnt á lagagreinina. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti minnti á hana í 21 skipti á árinu 1995.``

Þetta bendir tvímælalaust til að langflestir ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að honum sjálfum meðtöldum hafi brotið umrædda lagagrein. Ástandið er skást hjá félmrh., enda er hlutfall kvenna hæst í nefndum félmrn. en svarið útilokar ekki að þeir hafi einnig brotið lagagreinina og þyrfti að kanna til hlítar.

Þá kemur fram í svarinu að ráðuneytin hyggjast stuðla að því með virkari hætti að jafna hlutföll kynja í nefndum og ráðum m.a. með því að vitna til umræddrar lagagreinar eins og lögbundið er. Af þessu tilefni óska ég eftir skýringum félmrh. sem ég bið að vera hér viðstaddan. Hann er ábyrgur fyrir framkvæmd jafnréttislaganna og ég óska eftir skýringum hans á því að eftirlitið með framkvæmd laganna er ekki betra en það er.

Þá vil ég spyrja hæstv. forsrh. eða hæstv. félmrh. eftirfarandi spurninga:

1. Vita ráðherrarnir til þess að ráðuneytin hafi þegar tekið upp breytt vinnubrögð og farið að 12. gr. jafnréttislaganna? Ef ekki, eru áformaðar aðgerðir í því sambandi?

2. Hvernig skýrir forsrh. það að ráðuneyti hans hafa, með undantekningum þó, almennt ekki farið eftir þessari lagagrein?

3. Telur hæstv. forsrh. þessar staðreyndir gefa tilefni til að endurskoða jafnréttislögin eða framkvæmd þeirra?

4. Samkvæmt 22. gr. jafnréttislaganna er sá sem brýtur jafnréttislögin af ásettu ráði eða vanrækslu skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Telur hæstv. forsrh. réttmætt að bæta íslenskum konum það tjón sem hlotist hefur af því að nefnd lagagrein hefur ekki verið virt? Það má auðveldlega færa rök fyrir því að brot á 12. gr. jafnréttislaganna hafa haft áhrif á völd kvenna, atvinnu og laun.