1997-11-20 10:54:46# 122. lþ. 30.92 fundur 98#B framkvæmd ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaga# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:54]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Samkvæmt tölum er hlutfall kvenna í nefndum á vegum ríkisins einungis 23% sem er afar lágt en í gildandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er sagt að hlutur kvenna í lok árins 1997, þ.e. ársins í ár, eigi að vera 30%. Við erum því langt frá því að ná markmiði okkar. Maður spyr sjálfan sig hvernig í ósköpunum við ætlum að ná því markmiði ef við reynum ekki einu sinni að fara eftir gildandi lagabókstaf.

Hins vegar má sjá ýmislegt jákvætt af þessum tölum og hægt er að benda á að hæstv. félmrh. hefur náð 40% hlutfalli í nefndum sínum en maður getur svo sem sagt að það hlyti að sjálfsögðu að vera. Þetta er ráðuneyti sem fer með jafnréttismál. En það er jákvætt að hæstv. heilbrrh. hefur náð 35% hlutfalli, trúlega er það hærra samkvæmt nýjustu tölum, en þar er hægt að benda á að það er kona sem stýrir því ráðuneyti og ég held að það hafi skilað sér.

Hjá hæstv. forsrh. kom fram að bent hafi verið á að tilmæli um jafnt hlufall kynjanna hafi ekki alltaf skilað sér. Þetta finnst mér afar skrýtið að draga hér fram. Ég nefni að félmrn. hefur oftast minnt á að það eigi að tilnefna konur og karla og þar er skorið hæst þannig að maður skyldi ætla að þetta hafi skilað sér að verulegu leyti. Það er alveg ljóst að dropinn holar steininn og mjög brýnt er að í hvert einasta skipti verði minnt á að tilnefna eigi bæði konur og karla í nefndir og ráð vegna þess að vettvangur nefnda er mjög mikilvægur fyrir konur sem vilja hasla sér völl í stjórnmálum. Maður sér að konur sem hafa verið í nefndum hafa skilað sér inn í sveitarstjórnir og það sem meira er, helmingur kvenna, sem hafa skilað sér inn á Alþingi, hefur starfað í sveitarstjórnum en hlutfallið hjá körlum er miklu lægra. Það er brýnt að konur verði sýnilegar alls staðar í stjórnmálum. Þær skila sér þannig upp á toppinn.