1997-11-20 11:02:11# 122. lþ. 30.92 fundur 98#B framkvæmd ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaga# (umræður utan dagskrár), Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:02]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherrum fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra að ráðherrarnir fyrirhuga að bæta ráð sitt að þessu leyti og jafnframt að forsrh. viðurkennir að lagagreinin sé brotin og segir að það sé ekkert einsdæmi. Ég spyr hv. þingheim: Til hvers er verið að setja lög ef ráðherrar ríkisstjórna telja allt í lagi að brjóta þau? Og ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég saknaði þess úr svari hæstv. forsrh. að heyra hvort hann ætlar að bæta konum upp þennan vangáning. Eða er þetta kannski af ásettu ráði?

Þessi umræða sýnir mjög glöggt veikleika núgildandi jafnréttislaga og veikleikana í framkvæmd þeirra. Eina ráðuneytið sem almennt virðist fara eftir þessari grein sem er til umræðu er jafnréttisráðuneytið sjálft. En lítil merki eru um það að önnur ráðuneyti virði þetta ákvæði jafnréttislaga. Þessi framkvæmd sýnir glöggt að ríkisstjórnin hefur ekki tileinkað sér þá stefnu í jafnréttismálum sem kallast samþætting og íslenska ríkisstjórnin er þegar orðin aðili að í gegnum samþykktir EES og norrænu ráðherranefndarinnar. Sú stefna gengur út á að samþætta jafnréttismálin inn í öll ráðuneyti og málaflokka í stað þess að einangra þau í einu ráðuneyti.

Við kvennalistakonur erum nýkomnar af landsfundi þar sem þessi stefna var borin saman við núgildandi jafnréttislög og munum við beita okkur fyrir því að jafnréttislöggjöfin verði styrkt þannig að eftirlitsstofnun fái vald svipað og Samkeppnisstofnun hefur nú. Hér á landi er pólitískur vilji fyrir samkeppni en því miður virðist skorta allan pólitískan vilja hjá þessari ríkisstjórn fyrir jafnrétti kynjanna þrátt fyrir fögur fyrirheit. Og ekki virðist vanþörf á að taka landsföður Íslands á jafnréttisnámskeið eins og gert hefur verið í Svíþjóð með góðum árangri.

Herra forseti. Eftir situr samt sú spurning hvernig það má vera að heilu ríkisstjórnirnar komast upp með að brjóta lög og hvað beri að gera þegar slíkt er upplýst. Ég vil að lokum spyrja hæstv. forsrh. hvað honum finnst um það að rannsóknarnefndir verði skipaðar í svona tilfellum eða að lögum um ráðherraábyrgð verði beitt.