1997-11-20 11:04:50# 122. lþ. 30.92 fundur 98#B framkvæmd ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaga# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þó að það sé sagt úr þessum ræðustól að fjölmörg dæmi séu þess að lagabókstafnum sé ekki fylgt, þá felst ekki í þeim staðreyndalýsingum yfirlýsing af minni hálfu eða annarra að menn telji það allt í lagi. Þetta eru bara staðreyndir sem eru þekktar og hafa verið ræddar hér oft á þessum stað. Hvað segja menn um lög um bann við tóbaksauglýsingum og áfengisauglýsingum? Þetta er brotið alla daga meira og minna. (GGuðbj: Ekki ráðherrar.) Ég skal ekki segja um það hvort þeir brjóta lögin. (Gripið fram í.) Ég lýsti þeim staðreyndum að eftir fjölmörgum lagabókstöfum væri ekki farið. En hér í þinginu, fyrst það er nefnt, þá er víst að lögum um hvíldartíma er ekki haldið uppi. Og það eru þó lög, ekki höldum við þeim uppi. Í stjórnarskránni sjálfri segir reyndar að ráðherrar megi tala eins oft og þeir kjósa. Það er brotið með þingskapalögum, þannig að það er til fullt af dæmum um slíkt. Ég er ekki að mæla því bót þó að maður lýsi þessum staðreyndum. Það er fjöldinn allur af lagafyrirmælum og ég gæti sjálfsagt verið í allan dag að telja upp slík lagafyrirmæli sem eru brotin. Það er ekki gott. En það er heldur ekki gott að setja í lög fyrirmæli sem eru þess eðlis að erfitt er að halda þeim uppi. Ég er ekki að segja að þetta tiltekna ákvæði sé þess eðlis og má ekki rangtúlka orð mín að þessu leyti til.

Ef Kvennalistinn til að mynda fengi beiðni um tilnefningar þar sem helst jafnmargar konur og karlar ættu að vera og búið væri að tilnefna nánast eintómar konur, mundi Kvennalistinn tilnefna karl? Ég hef efasemdir um það. Ég býst við að Kvennalistinn mundi brjóta lögin og tilnefna konu. En svona eru dæmin til.

Varðandi skaðabótaákvæði sérstaklega sem nefnt var þá tel ég að það eigi ekki við. Um það hvort draga eigi ráðherra fyrir landsdóm af þessu tilefni, þá verður þingmaðurinn að gera það upp við sig sjálfur.