Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:07:02 (1463)

1997-11-20 11:07:02# 122. lþ. 30.1 fundur 248. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (skipunartími stjórnarformanna heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:07]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Í frv. er lögð til sú breyting á ákvæðum laganna að skipunartími formanna stjórna sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva verði hinn sami og embættistími þess ráðherra sem skipar þá.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er kjörtímabil stjórna sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva hið sama og sveitarstjórna. Í stjórnunum sitja fimm fulltrúar, þar af eru þrír kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum og einn tilnefndur af starfsmönnum. Formaður stjórnar er því eini fulltrúinn í stjórninni sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar.

Allur rekstrarkostnaður sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva er sem kunnugt er greiddur af ríkinu, svo og 85% af stofnkostnaði. Þrátt fyrir þetta er meiri hluti stjórnanna tilnefndur af sveitarstjórn sem ber ekki fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum. Það er því mjög mikilvægt fyrir ráðherra að geta sjálfur valið þennan trúnaðarmann sinn í stjórnina.

Gert er ráð fyrir því að fyrrgreind breyting taki gildi 1. júní nk., þ.e. að loknum sveitarstjórnarkosningum. Núverandi formenn munu því sitja út sinn skipunartíma. Þá mun heilbrrh. eftir sem áður skipa stjórn sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva að loknum sveitarstjórnarkosningum í vor.

Verði frv. að lögum verður hins vegar sú breyting að skipunartíma þeirra formanna sem heilbrrh. skipar í vor lýkur þegar embættistíma ráðherra lýkur. Sá heilbrrh. sem við tekur að loknum næstu alþingiskosningum mun því fá tækifæri til þess að velja sjálfur formenn stjórnanna.

Með flutningi þessa frv. er núverandi heilbrrh. því að búa í haginn fyrir þann heilbrrh. sem við tekur eftir næstu alþingiskosningar og þá sem á eftir koma. Hér er um að ræða mjög einfalda og sjálfsagða breytingu og ég tel óþarfa að hafa um hana fleiri orð. Ég vænti þess að frv. hljóti jákvæðar undirtektir og verði afgreitt á þessu þingi.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr. að lokinni umræðu hér.