Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:09:52 (1464)

1997-11-20 11:09:52# 122. lþ. 30.1 fundur 248. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (skipunartími stjórnarformanna heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:09]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er fallega gert af hæstv. heilbrrh. að hugsa til eftirmanna sinna. Satt að segja talar ráðherrann eins og hún sé um það bil að hverfa úr embætti. Ég vona að ekkert slíkt liggi að baki því að ég a.m.k. vil hafa hana sem lengst í því embætti sem hún gegnir núna.

Herra forseti. Ég kem hingað til þess að lýsa stuðningi við þetta frv. Við höfum áður átt í nokkrum deilum um þetta ég og hæstv. ráðherra vegna þess að hún hefur freistað þess tvisvar sinnum að koma þessari breytingu í gegn með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég og minn þingflokkur höfum lagst alfarið gegn þeirri framkvæmd mála. Við höfum bent á að það sé út í hött að gera slíkar breytingar sem eru varanlegar og eiga því samkvæmt eðli bandormsins ekki heima í slíku frv. Við höfum hins vegar sagt að kæmi þessi breyting fram sem sérstakt frv. þá mundum við styðja hana.

Í frv. felst að skipunartími formanna stjórna sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva fylgir nánast ráðherratímanum. Það er eðlilegt. Þetta er eini trúnaðarmaður sem ráðherrann hefur í stjórnum þeirra stofnana og það er nauðsynlegt, eins og heilbrigðiskerfið er byggt upp núna, að ráðherrann geti haft stuðning þeirra til að framkvæma þær breytingar sem hann beitir sér fyrir.

Því hefur stundum verið haldið fram að sú staða sem nú er uppi, að þarna eru stjórnarformenn sem ekki eru skipaðir af þeim ráðherra sem situr, hafi komið í veg fyrir að hægt sé að fylgja stefnunni. Það hefur aldrei verið hægt að benda á dæmi um það utan kannski eitt. En ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi að vera svona og þetta kerfi sem hérna er lagt til eigi að gilda sem víðast í hinni opinberu stjórnsýslu. Og ég mun beita mér fyrir því að heilbr.- og trn. afgreiði þetta mál fljótt og vel til þess að vilji ráðherrans geti orðið að lögum.