Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:12:05 (1465)

1997-11-20 11:12:05# 122. lþ. 30.1 fundur 248. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (skipunartími stjórnarformanna heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:12]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar fyrrv. heilbrrh. nokkur tók við störfum og hitti formenn stjórna heilsugæslustöðva að máli, þá hafði hann við orð: Er ég á fundi í Framsfl. en forveri hans hafði verið framsóknarmaður og hafði þá skipað eiginlega alla formennina eftir flokksskírteinum. Eftirmaðurinn sá að við svo búið mátti ekki lengur standa og skipti um alla formennina og losaði sig við alla þessa framsóknarmenn og setti náttúrlega sína flokksmenn þar sem því var viðkomið. Það gekk yfirleitt mjög vel, þó voru til landsvæði þar sem verulegur hörgull var á flokksmönnum viðkomandi ráðherra þannig að niðurstaðan varð sú sums staðar að hann neyddist til að seilast inn í aðra flokka m.a. Alþb. til að reyna að leysa þessi vandamál og tókst oft vel.

Þetta nefni ég hér, herra forseti, vegna þess að mér finnst öll þessi nálgun óeðlileg, algerlega óeðlileg. Ég tel að sumar nefndir og ráð hjá ríkinu séu þannig að eðlilegt sé að það sé tryggt að ráðherrar geti séð til þess að þeirra stefna að því er varðar fjármál nái fram að ganga. En þegar hlutirnir eru settir upp þannig að það sem skipti meginmáli sé hinn pólitíski litur viðkomandi nefndarformanna, það er algerlega óeðlilegt sjónarmið, sérstaklega í heilbrigðismálum og ég vísa því algerlega á bug.

Ég tel hins vegar eftir atvikum miðað við aðdraganda þessa máls enga ástæðu til að leggja stein í götu þess eins og það liggur fyrir vegna þess að það á út af fyrir sig ekki að taka gildi fyrr en eftir langan tíma. Ég teldi þó að til greina kæmi og vil benda hv. formanni heilbrn. og hæstv. ráðherra á það að taka fram hvaða kostum stjórnarformemnn þurfi að vera búnir þannig að það sé ekki skilyrðislaust skilið svo að þeir þurfi að vera í viðkomandi stjórnmálaflokki heldur sé talað um það beinlínis. Þeir þurfa að þekkja til heilbrigðismála, hafa þekkingu á heilbrigðismálum, rekstri þeirra eða annarri starfsemi og ég bendi á þann möguleika að frv. verði hreinlega breytt þannig að æskilegt sé að ráðherra hafi það til hliðsjónar að um verði að ræða menn sem þekkja eitthvað til heilbrigðismála númer eitt, tvö og þrjú áður en gengið er frá skipan manna í þessi störf.