Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:58:02 (1475)

1997-11-20 11:58:02# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:58]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði að nefndin hefði komist að sameiginlegri niðurstöðu og ég taldi það út af fyrir sig merkilegt því þarna hefðu jú verið samankomnir fulltrúar mjög ólíkra aðila. Hv. þm. Svavar Gestsson dregur í efa að samkomulag nefndarinnar hafi verið eins gott og ég vil vera láta en ég ætla þá að leyfa mér að lesa hér smákafla úr bréfi til hæstv. iðnrh. 9. október 1996 sem nefndin skrifaði öll undir, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Skýrsla nefndarinnar fylgir hér með. Nefndarmenn eru í aðalatriðum sammála um þær meginlínur í framtíðarskipan orkumála sem lýst er í skýrslunni þótt áherslumunur sé milli þeirra um útfærsluatriði. Í því sambandi áskilja nefndarmenn sér rétt til að skila til ráðherra nánari skýringum á hugmyndum sínum og áherslum, m.a. um verðjöfnun, umhverfissjónarmið, auðlindastefnu og fleira.`` Þennan rétt notfærði sér sennilega u.þ.b. helmingur nefndarmanna, sendi ráðherra ágætar greinargerðir með skoðunum sínum en eftir stendur að nefndin stóð sameiginlega að þeirri niðurstöðu sem birt var í skýrslunni og eins og hér segir --- nefndarmenn voru sammála um þær meginlínur sem þar koma fram.