Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 12:01:05 (1477)

1997-11-20 12:01:05# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:01]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála því að formaður þessarar nefndar hafi beitt óeðlilegum eða ólýðræðislegum vinnubrögðum og tel að hann hafi haldið afskaplega vel utan um starf nefndarinnar. Hann var í mjög góðu sambandi við nefndarmenn og lagði áherslu á að sjónarmið manna kæmu fram, ræddi mikið við menn utan funda um hvað þeim fyndist og hvernig þeir vildu hafa þetta og ég tel að hann hafi skilað góðu verki. Í skýrslu nefndarinnar koma fram allar þær greinargerðir og athugasemdir sem einstakir nefndarmenn kusu að senda hæstv. ráðherra. Það var ekki farið í neinar felur með þær. Þær eru allar birtar í þessari skýrslu, hver einasta þannig að ég er ekki sammála málflutningi hv. þm. Svavars Gestssonar. Mér finnst hann eiginlega vera að gefa í skyn að fulltrúi Alþb. í nefndinni hafi ekki vitað hvað hann var að skrifa undir en það var alls ekki svo. Allir nefndarmenn voru fyllilega meðvitaðir um það og gerðu sér grein fyrir að þeir voru í meginatriðum sammála, í aðalatriðum eins og stendur í skýrslunni, en kusu að koma einstökum sjónarmiðum á framfæri með öðrum hætti til hæstv. ráðherra og öll þau sjónarmið eru birt í skýrslu nefndarinnar.