Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 12:41:36 (1483)

1997-11-20 12:41:36# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:41]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að þeim einstöku atriðum sem hafa komið fram við þessa umræðu vil ég þakka fyrir umræðuna og þær jákvæðu undirtektir sem ég tel að hún hafi að mörgu leyti fengið. Það er alveg rétt að vitaskuld er mörgum spurningum ósvarað og ég vonast til að hv. iðnn. Alþingis taki tillöguna til rækilegrar umfjöllunar því hún er ekki það fullkomin í mínum huga að ekki megi neinar breytingar á henni gera. En til þess að halda öllum staðreyndum til haga, af því að ég veit að hv. þm. Svavar Gestsson vill hafa sannleikann að leiðarljósi og af því að hv. þm. neitaði því áðan við lok máls síns úr þessum ræðustóli að hann hefði neitt komið að því að taka þátt í hækkun raforkuverðs hjá Landsvirkjun um 3,2%, þá eru bara staðreyndirnar aðrar hvað sem hv. þm. segir og skjalfestar staðreyndir eru til staðar í þessu máli.

Mánudaginn 25. nóvember 1996 var haldinn fundur í stjórn Landsvirkjunar. Samkvæmt fundargerð þess fundar var þar mættur hv. þm. Svavar Gestsson. 3. mál á dagskrá þess fundar var tillaga frá forstjóra Landsvirkjunar sem hljóðar svo:

,,Með vísan til umsagnar Þjóðhagsstofnunar í bréfi sínu til Landsvirkjunar dags. 4. nóvember 1996 er lagt til að stjórnin samþykki að gjaldskrá Landsvirkjunar hækki um 3,2% hinn 1. apríl 1997. Þessi hækkun er miðuð við áætlun Þjóðhagsstofnunar um þörfina fyrir gjaldskrárbreytingu í hátt við almennar verðlagsbreytingar milli áranna 1996 og 1997. Breytist forsendur þessarar áætlunar þegar líður á árið 1997 verði þörfin fyrir hækkun gjaldskrárinnar endurskoðuð.``

Þetta þýddi að Landsvirkjun var ekki að hækka gjaldskrána á þessum tíma nákvæmlega eins og hækkun byggingarvísitölu hafði orðið heldur talsvert mikið minna. Menn töldu þá í stjórninni að þessi hækkun gæti hugsanlega þurft að verða meiri. Því þyrfti að taka þetta til endurskoðunar og þá gengið út frá því að þetta þyrfti að hækka. Síðan segir í fundargerðinni:

,,Stjórnin samþykkti einróma tillögur forstjóra`` og undir þessa fundargerð skrifar hv. þm. Svavar Gestsson sem þá sat í stjórn Landsvirkjunar. Staðreyndirnar tala því í þessu máli og hafi hv. þm. viljað beita sér raunverulega fyrir því að þessar hækkanir gengju ekki fram á þessum tíma, sem eru mun meiri en þær hækkanir sem nú eiga sér stað, hefði hv. þm. getað nýtt tækifærið sem hann hafði sem stjórnarformaður til þess.

Varðandi þau efnislegu atriði sem hér hefur verið vikið að í þessari umfjöllun vil ég fyrst koma að skýrslunni og nefndarstarfinu af því að það var gert að umtalsefni áðan. Fram kemur í skýrslu nefndarinnar sem skipuð var fulltrúum allra stjórnmálaflokka, fulltrúum sveitarfélaga, fulltrúum orkufyrirtækjanna, að samkomulag varð um meginlínur. Meginlínurnar eru þær að innleiða samkeppni í áföngum í orkubúskapinn. Um þetta meginatriði náðist samkomulag. Síðan voru einstakir nefndarmenn sem vildu fá að gera athugasemdir, lýsa nánar hvernig þeir vildu útfæra einstaka þætti málsins og það gafst nefndarmönnum tækifæri á að gera. Þær athugasemdir fylgja þeirri skýrslu sem iðnrn. gaf út og þær athugasemdir fylgja þessari þáltill. Það er óréttmætt af hálfu hv. þm. Svavars Gestssonar að vera að ásaka fjarstadda menn. Hér eru óeðlileg vinnubrögð í þessu máli. Ég tel að formaður nefndarinnar, Þórður Friðjónsson, hafi staðið sig afskaplega vel, enda kom það fram í þeirri umræðu að einn hv. alþm. sem tók þátt í þessu starfi bar formanninum góða sögu um það hvernig hann hefði haldið á nefndarstarfinu. Ég tek undir það og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka formanninum og öllum þeim mönnum sem tóku þátt í þessu nefndarstarfi fyrir vel unnin störf. Ég tel að þarna hafi náðst skynsamleg niðurstaða. Það getur hins vegar alltaf verið deiluatriði hversu langt á að ganga í því að útfæra einstaka hluti.

[12:45]

Hv. þm. Svavar Gestsson gerði umhverfismálin að umræðuefni og taldi ekki nógu skýrt að orði kveðið í þeim efnum hér. Ég get alveg tekið undir það. Það er eins og í mjög mörgu öðru, að kveða hefði mátt skýrar að orði í þessari till. til þál. Hún er ekki fullkomin eins og ég sagði áðan. Hún er hins vegar stefnumótun sem er að stórum hluta útfærð en þó ekki að öllu leyti. Hún er stefnumótun ríkisstjórnarinnar fram til ársins 2010 um það hvernig menn vilji sjá fyrir sér breytingar í orkumálum. Hvorki á þessum sviðum né öðrum hafa aðrar ríkisstjórnir lagt til jafnskýra stefnu í einstökum málaflokkum. Ég hélt að það væri vilji þingsins að fá að vita afstöðu ríkisstjórnarinnar. Á sínum tíma var margoft kvartað undan því úr þessum ræðustóli að ekki lægi fyrir nógu skýr afstaða ríkisvaldsins í málefnum orkufyrirtækjanna og þess minnist ég frá umræðunni um Landsvirkjun.

Hvað umhverfismálin snertir þá eru í gildi lög um mat á umhverfisáhrifum og orkugeirinn þarf að fara eftir því, a.m.k. allar nýjar virkjanir. Það gildir aðallega um þær virkjanir sem var tekin ákvörðun um áður en þau lög tóku gildi. Orkulindir okkar eru sem betur fer endurnýjanlegar og þar af leiðandi eru þær grænar orkulindir þannig að við erum ekki að fást við þessi vandamál sem snúa að umhverfismálum í jafnríkum mæli og aðrar þjóðir. Þeirri spurningu er hins vegar ekki svarað hversu langt skuli ganga í nýtingu orkulindanna og hversu hratt menn vilja ganga fram í þeim efnum. Mín afstaða er alveg skýr. Við eigum að nýta orkulindirnar til atvinnuuppbyggingar í landinu og til efnahagslegra framfara til þess að geta hér á komandi árum bætt lífskjörin og staðið undir þeim efnahagslegu framförum sem við viljum færa öllum Íslendingum.

Varðandi jöfnun orkuverðs þá ætla ég ekki að deila um það hvað er í þáltill. og hvað er ekki. Öll þau skjöl og gögn sem fylgja þáltill. eru hluti af henni. Þar kemur fram afstaða ráðuneytisins og afstaða þeirra einstaklinga sem tóku þátt í nefndarstarfinu. Þar er gert ráð fyrir að svipað fyrirkomulag og nú er í gildi varðandi orkuverðsjöfnunina verði tekið upp. Ég tel hins vegar að það verði hægt að ganga lengra til jöfnunar orkuverðs ef þessu skipulagi verður komið á. Í fyrsta lagi mun samkeppnin um að komast með sína framleiðslu inn á landsnetið, samkeppnin milli raforkuframleiðendanna, leiða til þess að orkuverð lækkar. Samkeppnin mun leiða til þess að orkuverðið lækkar. Það verður til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Ekki er talað um að landsnetið verði í eigu einkaaðila heldur geti það orðið í eigu ríkisins. Eins og lýst er yfir í þessari tillögu á það að hafa sama hlutverk og Landsvirkjun hefur í dag. Í gegnum landsnetið gefst síðan tækifæri til að nota þær aðferðir, sem pólitísk samstaða verður um á hverjum tíma, til að jafna orkuverðið til allra landsmanna Að mínu viti gefast þarna betri tækifæri en við höfum í dag til að ná fram jöfnun orkuverðs. Jafnframt er um mun skýrari leið til jöfnunar orkuverðs að ræða en við búum við í dag og það tel ég vera mikilvægt. Í gegnum flutningskerfi sem landsnetið tel ég að við getum náð fram jöfnun orkuverðs.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði hvað fyrsti liður þáltill. þýddi. ,,Að yfirfara rekstrarform raforkufyrirtækja sem ríkið á eigarhlut í og meta markaðsvirði þeirra með það að markmiði að samræma arðgjafar- og afgreiðslumarkmið þeirra, m.a. með hliðsjón af breytingum á sameignarsamningi um Landsvirkjun sem gerðar voru á árinu 1996.`` Staðreyndin er sú, a.m.k. gagnvart öllum þeim fyrirtækjum sem heyra undir iðnrn., að eigandinn, ríkið í þessu tilfelli, hefur aldrei mótað skýra afstöðu og stefnu um hver þau markmið séu sem þessi fyrirtæki eigi að hafa. Ég tek gott dæmi af Sementsverksmiðju ríkisins sem Alþfl. beitti sér fyrir að breyta í hlutafélag. Skýr afstaða eigandans um til hvers væri ætlast af stjórnendum þess fyrirtækis kom aldrei fram, engin arðgjafar- né arðgreiðslumarkmið. Sama gilti um Landsvirkjun.

Landsvirkjun er fyrsta fyrirtækið á þessu sviði þar sem eru sett skýr arðgreiðslu- og arðgjafarmarkmið sem fyrirtækið á að uppfylla og mun uppfylla. Við ætlum að halda áfram á þessari braut. Álíka vinna er í gangi gagnvart Orkubúi Vestfjarða, Hitaveitu Suðurnesja og Rafmagnsveitum ríkisins. Í fullri samvinnu við stjórnendur þessara fyrirtækja er að fara fram úttekt á markaðsverði þeirra. Á grundvelli þess munu menn síðan gera kröfur til arðgjafar- og arðgreiðslumarkmiða. Ein undantekning frá þessu eru Rafmagnsveitur ríkisins. Fyrirtækið var ekki metið, heldur skelltu menn fram einhverri flatri prósentu og sögðu: Þetta arðgreiðslumarkmið á fyrirtækið að uppfylla. Engar kannanir lágu að baki því hvort þetta væri nokkurn tíma hægt að uppfylla, enda er það nú að koma í ljós að þetta var gert að óyfirveguðu ráði í upphafi árs 1995, ég veit að fyrrv. hæstv. iðnrh. kannast við það, og fyrirtækið stendur ekki undir þessum markmiðum. Þess vegna er þessi endurskoðun sem nú fer fram á því fyrirtæki og menn þurfa þá að setja sér raunhæf arðgreiðslu- arðgjafarmarkmið.

Staðreyndin er hins vegar sú að í kjölfar þessa verður hægara fyrir stjórnendur fyrirtækjanna að starfa og stjórnina alla. Það er vitað til hvers er ætlast. Fyrirtækin vita hvaða skilyrði þau eiga að uppfylla og ef ég man rétt, þá er það svo að sveitarfélögin á Vestfjörðum, eigendur Orkubús Vestfjarða, hafa óskað eftir því að geta fengið greiddan arð af sínum fyrirtækjum. Ég er ekki nákvæmleg með þau bréf hér fyrir framan mig en ég held að ég sé ekki að fara með rangt mál með því að segja að þaðan hafi komið óskir um að það fyrirtæki skili eigendum sínum arði. Ég man það vegna þess að ég átti ágætan fund fyrir fáeinum dögum með fulltrúum eins sveitarfélagsins á Vestfjörðum, út af Orkubúi Vestfjarða, þar sem þær kröfur voru uppi frá Vesturbyggð að þeir gætu fengið arð út úr fyrirtækinu. Á það hefur ekki verið fallist. Af því að hv. þm. spyr hvort það komi til greina að ríkið kaupi Orkubú Vestfjarða, þá hefur ekki verið samstaða um það milli sveitarfélaganna á Vestfjörðum sem eiga 60% í fyrirtækinu, að ríkið kaupi fyrirtækið. Það hafa heldur ekki komið óskir frá ríkinu um að kaupa fyrirtækið. Hins vegar hafa borist óskir frá einstökum sveitarfélögum fyrir vestan um að ríkið kaupi eignarhlut þeirra í Orkubúinu. Við því hefur ekki enn þá fengist svar en mun kannað sérstaklega á næstu vikum og mánuðum.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði formið að umtalsefni og ég get í sjálfu sér tekið undir það að það má velta því fyrir sér hvaða form hefði verið heppilegast. Þáltill. var niðurstaðan. Tíminn er minni til þeirrar umræðu en um skýrslu. Það er vilji okkar að fá þessa till. til þál. samþykkta hér frá Alþingi. Á grundvelli hennar verður auðveldara að vinna og stefna af Alþingis hálfu í þessum málaflokki ákveðin.

Af því að hv. þm. spurði hvort ég liti svo á að með ákvæðum í þáltill. væri verið að veita iðnrh. heimild til að gefa út virkjanaleyfi, ef ég hef skilið hv. þm. rétt, þá er það alveg klárt að svo er ekki. Á grundvelli þessarar þáltill. er ekki hægt að segja: Nú hefur verið veitt leyfi til þess að tilteknir virkjanakostir verði dregnir fram og Alþingi hafi heimilað slíkt og í kjölfar þess þarf síðan iðnrh. að gefa út virkjanaleyfi. Það er af og frá. Slíkt þyrfti að koma til sérstakrar umfjöllunar á Alþingi ef eftir slíku væri leitað.

Hins vegar er alveg klárt að iðnrh. þarf ekki heimild Alþingis til þess að hefja viðræður við erlenda fjárfesta um hugsanlega uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi og það veit ég að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson man frá því að hann sat í stól iðnrh. Þá er sama hvort um er að ræða þátttöku þeirra í byggingu orkuvera eða iðnfyrirtækja þar sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu hafa heimild, frá og með síðustu áramótum, til þess að fjárfesta í virkjunum á Íslandi í kjölfar samþykktar okkar á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og það veit ég að hv. þm. þekkir mjög vel.