Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 12:58:33 (1484)

1997-11-20 12:58:33# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:58]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. lét svo um mælt hér áðan vegna umræðu um verðjöfnun og raforku að öll gögn sem fylgi tillögunni séu hluti af henni sjálfri og þá á hann við greinargerðina. Þetta hef ég aldrei heyrt áður og er nú búinn að sitja á Alþingi nokkuð lengi. Greinargerð er ekki lögð fyrir til samþykktar. Greinargerð er ekki hluti af tillögu. Það sem stendur í greinargerð með tillögu sem síðar er samþykkt skoðast ekki samþykkt af Alþingi. Það er aðeins tillagan sjálf sem er afgreidd á Alþingi en ekki þau gögn sem henni fylgja. Þess vegna er nauðsynlegt að ákvæði m.a. um verðjöfnun á raforku komi inn í tillgr. vegna þess að það er ekki að finna aukatekið orð um slíka hluti í tillgr. sjálfri og er fráleitt að vísa til þess að um það sé fjallað í greinargerð. Þannig er með fjölmörg önnur atriði þannig að vilji hæstv. iðnrh. fá þessa tillögu samþykkta og líta svo á að hún túlki einhverja stefnu Alþingis, þá þarf hæstv. iðnn. að umskrifa tillöguna.