Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 13:03:05 (1488)

1997-11-20 13:03:05# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[13:03]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það hafa lengi verið nokkuð skýr markmið sem stjórnendur Orkubús Vestfjarða hafa haft að leiðarljósi í starfi sínu. Í fyrsta lagi að selja raforkuna á sama verði á öllu starfssvæði Orkubúsins. Í öðru lagi að auka öryggi í afhendingu á raforku og því hefur miklu fjármagni verið varið í að endurbyggja línur og koma upp varaafli. Í þriðja lagi að arður af rekstri fyrirtækisins verði tekinn út í gegnum gjaldskrána með því að hafa gjaldskrána sem því nemur lægri í stað þess að innheimta arðinn og dreifa honum út.

Ljóst er að ríkið hefur hugmyndir um að breyta í þessum efnum með því að gera kröfu um arðgjöf og arðgreiðslur á grundvelli markaðsvirðis fyrirtækisins. Þá erum við komin inn í nýtt umhverfi hvað varðar eigendahóp Orkubús Vestfjarða. Reyndar hafa líka heyrst raddir frá einstökum sveitarfélögum sem eru farin að gera kröfur um fjármagn til sín þó að fyrst og fremst hafi þær kröfur verið í formi þess að selja eignarhlut sinn og innleysa þannig þá fjármuni sem stjórnendur sveitarfélaganna sem þetta hafa lagt fram telja að sé hlutur þeirra. Þetta hvort tveggja segir okkur að viðhorfin eru að breytast meðal eigenda Orkubúsins og við þurfum því að bregðast við því.

Því til viðbótar er mjög erfið fjárhagsleg staða allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Enda þótt ekki hafi verið enn sem komið er almenn krafa um það af hálfu sveitarfélagahópsins, þá hafa menn hugleitt hvort unnt væri að selja eignarhlut sinn en hann nemur samkvæmt bókfærðu verði nokkuð á þriðja milljarð kr.