Úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 14:28:00 (1502)

1997-11-20 14:28:00# 122. lþ. 31.7 fundur 270. mál: #A úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[14:28]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að hreyfa fjárhagsvanda Háskóla Íslands. Staðreyndin er sú að niðurskurður á framlögum til Háskóla Íslands nemur núna frá árinu 1991 til ársins 1997 um 700 millj. kr. á sambærilegu verðlagi sem samsvarar því að einn kennaraháskóli hafi verið skorinn niður. Það er ótrúlegur niðurskurður á þessari stofnun og það er líka ótrúlegt langlundargeð sem Háskóli Íslands hefur sýnt stjórnvöldum á þessum tíma. Því er ekkert óeðlilegt að það mál sé tekið hér upp þó að það sé að vísu óvenjulegt að stjórnarþingmaður taki málið upp með þeim hætti sem hér gerist á sama tíma og verið er að afgreiða mál í fjárln. og í menntmn.

Staðan er núna sú að háskólann vantar samkvæmt upplýsingum háskólarektors á þriðja hundrað millj. kr. Það er bersýnilegt að háskólinn stendur frammi fyrir mjög alvarlegri tilvistarkreppu vegna þess að verið er að skera niður til hans fjármuni og vegna þess að á sama tíma er verið að reyna að knýja fram grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi háskólans sem sæta mjög mikilli gagnrýni í háskólanum. Ég verð að segja fyrir mig að ég tel að stjórnkerfisbreytingarnar séu meingallaðar að flestöllu leyti. Háskóla Íslands er haldið í bóndabeygju af stjórnvöldum og menntmrh. og fjmrh. í þessu máli þar sem annars vegar er peningavandi og hins vegar er um að ræða kröfur um gerbreytt stjórnkerfi. Háskóli Íslands hefur búið við það stjórnkerfi alveg frá upphafi með örfáum undantekningum að litið hefur verið á hann eins og lýðveldi, svo að segja sjálfstæða stofnun, sem starfaði eftir þeim lögum sem sett eru á hverjum tíma en reglugerðin um háskólann hefur verið afbrigðileg og einstök í íslenska stjórnkerfinu. Engin önnur reglugerð er staðfest á ríkisráðsfundi en þannig er það með reglugerðina um Háskóla Íslands og það er til að undirstrika að hér sé um að ræða sérstakan pappír sem hafi sérstaka stöðu.

Nú sýnist mér á öllum tilraunum menntmrh. að verið sé að veikja þetta sterka sjálfstæði háskólans með því að gera háskólarektor að embættismanni og skera niður framlög til háskólans á sama tíma og verið er að tala um að leggja á skólagjöld eins og eru reyndar uppi hugmyndir um í háskólafrv. sem við erum með til meðferðar í hv. menntmn. Það er því vegið að Háskóla Íslands úr mörgum áttum og honum veitir ekki af liðsmönnum hvaðan svo sem þeir koma og ég held að það sé gott að þeir verði bara sem allra flestir, m.a. úr stjórnarflokkunum. Ég vona að tillaga hv. þm. sé til marks um það að aðrir þingmenn stjórnarflokkanna munu koma á eftir henni og styðja hana í því að halda uppi málstað Háskóla Íslands.