Fangelsi og fangavist

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 14:56:59 (1507)

1997-11-20 14:56:59# 122. lþ. 31.5 fundur 291. mál: #A fangelsi og fangavist# (heilbrigðisþjónusta, vistun gæsluvarðhaldsfanga og samfélagsþjónusta) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[14:56]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. vék að sjónarmiðum varðandi varnaðaráhrif refsinga og samfélagsþjónustu. Nú er það svo að refsing byggir á margþættum sjónarmiðum, varnaðarsjónarmiðum sem er vissulega mjög veigamikill þáttur í refsingum en einnig koma þar til önnur sjónarmið eins og réttmætt endurgjald fyrir það afbrot sem viðkomandi maður hefur framið gagnvart einstaklingum eða samfélaginu og mjög vandasamt er að greina þarna á milli. Ég býst við því að býsna vandasamt sé að greina á milli hvort samfélagsþjónusta af þessu tagi hefur meiri eða minni varnaðaráhrif en eiginleg frelsissvipting í fangelsi. Ætla mætti að frelsissviptingin hefði meiri varnaðaráhrif en þar getur komið á móti að slík lokun frá hinu frjálsa samfélagi veki upp aðrar og neikvæðari kenndir hjá þeim sem í hlut eiga. Allt eru þetta atriði sem út af fyrir sig er erfitt að alhæfa um og geta líka verið mjög einstaklingsbundin. Aðalatriðið í þessu tilviki, sem við erum að fjalla um hér, er að þetta úrræði þykir hafa gefist vel varðandi þá sem hafa hlotið vægar refsingar en þó brotið af sér og í þeim mæli að til dóms um frelsissviptingu hefur komið. Það er alltaf gagnlegt að auka rannsóknir á þessu sviði lögfræðinnar eins og öðrum og reyndar má segja að þetta svið tengist líka öðrum félagsfræðigreinum og ég tek undir með hv. þm. að frekari rannsóknir á því sviði geti verið áhugaverðar.

[15:00]

Hvaða dómar eru líklegir til þess að leiða til fullnustu samkvæmt reglum um samfélagsþjónustu eftir að hún hefur verið lengd upp í sex mánuði er ekki gott um að segja. Fram til þessa hafa þetta fyrst og fremst verið brot gegn umferðarlögum og ég geri ráð fyrir því að uppistaðan í samfélagsþjónustu verði áfram varðandi brot á umferðarlögum en þó er ekki hægt að útiloka að þar komi fleiri dómar inn en á því hafa ekki verið gerðar sérstakar rannsóknir eða athuganir. Það verður reynslan ein að leiða í ljós.

Þá spurði hv. þm. hvað hefði ráðið þessari 40 klukkustunda viðmiðun. Þar er fyrst og fremst byggt á reynslu annarra þjóða og skírskotunar til þess. Þetta kann að vera mismunandi frá einni þjóð til annarrar en í meginatriðum held ég að segja megi að þarna sé verið að skírskota til þess sem aðrar þjóðir hafa mótað eða þeirrar reynslu sem aðrar þjóðir hafa mótað við framkvæmd þessa úrræðis.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum ítreka þakklæti fyrir góðar undirtektar við málið og vona að það fái góða meðferð í hv. nefnd en jafnframt skjótan framgang.