Minning Björgvins Jónssonar

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:33:40 (1511)

1997-12-02 13:33:40# 122. lþ. 32.1 fundur 101#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:33]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Björgvin Jónsson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi alþingismaður, andaðist erlendis sunnudaginn 23. nóvember sl. Hann var sjötíu og tveggja ára.

Björgvin Jónsson var fæddur á Hofi á Eyrarbakka 15. nóvember 1925. Foreldrar hans voru hjónin Jón Björgvin Stefánsson verslunarmaður og Hansína Ásta Jóhannsdóttir húsmóðir. Hann lauk prófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1944 og prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1946. Starfsmaður við Kaupfélag Árnesinga á Selfossi var hann 1947--1952 og síðan kaupfélagsstjóri Kaupfélags Austfjarða á Seyðisfirði 1952--1963. Eftir það starfaði hann við rekstur útgerðar og fiskverkunar sunnan lands. Hann var stofnandi og framkvæmdastjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Glettings 1957--1990 og útgerðarfyrirtækisins Húnarastar frá 1973.

Björgvin Jónsson var í bæjarstjórn Seyðisfjarðar og bæjarráði 1954--1961 og hann var í stjórn fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækja á Seyðisfirði. Vararæðismaður Noregs á Austurlandi var hann 1958--1963. Hann var fulltrúi á fiskiþingi fyrir Reykjavík 1970--1991, sat í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1973--1976 og 1987--1989 og í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda 1974--1992. Í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins var hann 1986--1988 og hann var einn af stofnendum og stjórnarformaður Fiskimjölsverksmiðjunnar Óslands á Höfn í Hornafirði frá 1993.

Auk þess sem hér hefur verið talið var hann í stjórn ýmissa hagsmuna- og áhugafélaga.

Við alþingiskosningarnar 1956 var Björgvin Jónsson í kjöri á Seyðisfirði fyrir Framsfl., hlaut kosningu og var síðan endurkjörinn í fyrri kosningunum 1959. Í síðari kosningunum 1959 var hann kjörinn varaþingmaður Austurlandskjördæmis og tók sæti á Alþingi um tíma vorið 1960. Hann átti því sæti á fimm þingum alls.

Björgvin Jónsson sat á Alþingi síðustu ár einmenningskjördæmanna. Hann var í efri deild, stuðningsmaður ríkisstjórnar lengst af, og starfaði í sjávarútvegs-, iðnaðar- og samgöngunefndum deildarinnar. Seta hans í þingnefndum bendir til þeirra málaflokka sem áhugi hans beindist að.

Á Seyðisfirði hófust störf hans að útgerð og fiskvinnslu og bæjarfélagið naut framtaks hans til eflingar atvinnulífinu þar. Rekstri útgerðar og fiskvinnslu helgaði hann síðan ævistarf sitt, dugmikill, árvakur og forsjáll. Þekking hans á fiskveiðimálum leiddi til þess að hann var kvaddur til starfa í nefndum og stjórnum ýmissa samtaka. Á þeim sviðum nutu margir víðtækrar þekkingar hans og hollráða.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Björgvins Jónssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]